Skjern þokast jafnt og þétt ofar í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik eftir erfiða byrjun í haust. Skjern vann í dag Ringsted, 22:19, á útivelli og er þar með komið upp í sjötta sæti við hliðina á öðru Íslendingaliði, SönderjyskE sem einnig vann leik sinn í dag er það sótti Lemvig heim, 28:25. Hvort lið hefur níu stig, Skjern eftir sjö leiki en SönderjyskE að loknum átta.
Elvar Örn Jónsson var aðsópsmikill að vanda í liði Skjern. Hann skoraði fjögur mörk auk þess að vera í stóru hlutverki í vörninni. Norðmaðurinn Robin Haug fór hamförum í marki Skjern í leiknum og var með um 50% hlutfallsmarkvörslu.
Sveinn Jóhannsson skoraði ekki en lét til sín taka í vörn SönderjyskE í heimsókninni til Lemvig. Tvisvar urðu dómarar leiksins að grípa til þess ráðs að senda Fjölnismanninn í tveggja mínútna kælingu.