Danski landsliðsmaðurinn Mads Mensah Larsen, sem greindist jákvæður við covidpróf í fyrrakvöld, fékk neikvæða niðurstöðu úr öðru prófi sem hann gekkst undir síðdegis í gær. Niðurstaða þess lá fyrir í morgun. Hann er þar með laus úr sólarhringseinangrun og getur farið með félögum sínum í danska landsliðinu yfir til Malmö í kvöld.
Danska handknattleikssambandið sagði frá þessu í tilkynningu í morgun. Danska landsliðið er þar með án smita og getur hafið titilvörnina á HM á föstudaginn með fullskipaðri sveit.
Þungu fargi er þar með létt af Mensah og forráðamönnum danska landsliðsins sem óttuðust að Mensah gæti ekki tekið þátt í fyrsta leik danska landsliðsins á HM sem fram fer á föstudaginn gegn Belgíu i H-riðli.
Mensah er 31 árs gamall og hefur leikið með danska landsliðinu í 11 ár og á alls 159 landsleiki að baki. Síðustu þrjú ár hefur Mensah leikið með Flensburg í Þýskalandi en var áður í sex ár hjá Rhein-Nekcar Löwen. Hann hefur átt fast sæti í danska landsliðinu um árabil og unnið til sjö verðlaun með landsliðinu, þar á meðal til þrennra gullverðlauna, bæði á HM og Ólympíuleikum.
Leikjadagskrá HM – smellið hér.