Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann Gíneu, 25:20, í þriðju og síðustu umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Chuzhou í Kína í morgun. Staðan í hálfleik var 13:11, Íslandi í vil. Í síðari hálfleik var jafnt á öllum tölum allt þangað til í stöðunni 20:20 að íslensku stúlkurnar tóku á sig rögg og skoruðu fimm síðustu mörk leiksins.
Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á mótinu og með honum hafnaði liðið í þriðja sæti H-riðils, á eftir Þýskalandi og Tékklandi en fyrir ofan Gíneu. Þjóðverjar unnu riðilinn með stórsigri á Tékkum, 33:23, í morgun.
Næst tekur við hjá íslenska landsliðinu að leika í milliriðlum ásamt liðum sem hafna í þriðja þriðja og fjórða sæti í G-riðli. Um er að ræða landslið Rúmeníu og Egyptalands. Aðeins er spurning hvort þeirra fer áfram með tvö stig í milliriðil eins og íslenska liðið. Gínea flytur með í riðilinn án stiga.
Leikirnir í milliriðli verða mánudaginn 19. ágúst og þriðjudaginn 20. ágúst. Fyrri leikurinn verður gegn neðsta liði G-riðils.
Íslensku stúlkurnar hófu leikinn af krafti og náðu snemma fjögurra marka forskoti, 8:4. Leikmenn landsliðs Gíneu unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og tókst að minnka muninn hvað eftir annað í eitt mark. Þeim lánaðist ekki að komast yfir. Staðan var 13:11 í hálfleik, Íslandi í hag.
Gínea er land í Vestur-Afríku með landamæri að Gíneu-Bissá og Senegal í norðri, Malí í norðaustri, Fílabeinsströndinni í suðaustri, Líberíu í suðri og Síerra Leóne í suðvestri. Landið á strönd að Atlantshafinu í vestri.
Gíneuliðinu tókst að jafna metin fljótlega í síðari hálfleik. Eftir það var leikurinn í járnum allt þangað til fimm mínútur voru eftir. Þá tókst íslenska liðinu að hrista leikmenn Gíneu af sér og skora fimm síðustu mörk leiksins. M.a. fékk einn leikmanna Gíneu rautt spjald fyrir að slá Dagmar Guðrúnu Pálsdóttur í andlitið.
Mikilvægur sigur en um leið tækifæri til framfara.
Mörk Íslands: Dagmar Guðrún Pálsdóttir 6, Þóra Hrafnkelsdóttir 4, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Guðrún Hekla Traustadóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3/1, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 2, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1, Kristbjörg Erlingsdóttir 1.
Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 4, 27% – Ingibjörg Lovísa Hauksdóttir 3, 27%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.