- Auglýsing -

Skrifar undir þriggja ára samning við HK

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha sækir að vörn KA í kappleik í vetur. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Örvhenta skyttan, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, hefur ákveðið að kveðja Aftureldingu fyrir fullt og fast og ganga til liðs við HK. Þessu til staðfestingar skrifaði hann undir þriggja ára samning við Kópavogsliðið, eftir því sem fram kemur í tilkynningu handknattleiksdeildar HK í dag.


Hafsteinn Óli kom sem lánsmaður til HK frá Aftureldingu í haust sem leið eftir að hafa verið í herbúðum Aftureldingar leiktíðina 2020/2021. Áður lék Hafsteinn Óli með Fjölni í yngri flokkum og upp í meistaraflokk, m.a. keppnistímabilið 2019/2020 þegar Fjölnir lék síðast í Olísdeildinni.


Í tilkynningu HK segir að Hafsteinn Óli hafi fallið vel inn í leikmannahóp félagsins og vaxið fiskur um hrygg eftir því sem lengra leið á keppnistímabilið. Undir lok þess hafi Hafsteinn Óli verið orðinn einn af máttarstólpum liðsins, jafnt í vörn sem sókn. „Við lítum á hann sem lykilmann í uppbyggingu félagsins á komandi árum og hlökkum til að sjá hann blómstra í HK-treyjunni,“ segir orðrétt í tilkynningu HK sem áður er getið.


Hafsteinn Óli skoraði 59 mörk í 21 leik fyrir HK í Olísdeildinni. Liðið hafnaði í næst neðsta sæti og leikur í Grill66-deildinni á næsta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -