Margar staðreyndavillur eru um íslenska landsliðið í handknattleik kvenna í tímariti sem þýska handknattleikssambandið gefur út til kynningar á heimsmeistaramótinu og mbl.is segir frá. Sumar þeirra eru skrýtnar.
Villurnar eiga sér skýringar að einhverju leyti í margumræddum 35 kvenna lista sem valinn var í haust og er birtur á heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Sá listi á að vera upprunninn frá Handknattleikssambandi Íslands enda landsliðsþjálfarinn sem valdi þær 35 konur sem á listanum eru. Á umræddum lista úir og grúir í staðreyndavillum um íslenska landsliðið sem einnig eru étnar upp í kynningarefni á heimasíðu IHF.
Hvernig í ósköpunum allar villurnar hafa ratað inn í skjalið sem IHF birtir er ekki gott að segja um.
Dana Björg í Real Madrid
Listann sem m.a. má nálgast með því að smella hér. Á listanum er Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona og leikmaður Volda m.a. skráð sem leikmaður Real Madrid sem ekki haft kvennalið í handbolta á sínum snærum í háa herrans tíð. Sara Sif Helgadóttir markvörður Hauka og landsliðsins er sögð ennþá vera í Val og Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona og leikmaður Blomberg-Lippe er ennþá leikmaður BSV Sachsen Zwickau samkvæmt 35 kvenna listanum. Hún kvaddi það félag sumarið 2024.

Fleiri villur eru þar að finna eins og þá að Katrín Anna Ásmundsdóttir, leikmaður Fram og landsliðsins, er skráð í Gróttu. Hún fór frá félaginu í sumar til Fram.
Fleiri skráðar í röng félög
Einnig eru villur meðal leikmanna sem ekki eru með íslenska hópnum ytra en eru á 35 kvenna listanum. Má þar nefna að Sonja Lind Sigsteinsdóttir leikmaður Hauka er skráð í Stjörnuna og Tinna Sigurrós Traustadóttir er sögð vera á Selfossi. Nokkur ár eru síðan Sonja Lind gekk til liðs við Hauka frá Stjörnunni og Tinna Sigurrós gekk til liðs við Stjörnuna frá Selfossi sumarið 2024.
Endurtekið efni
Í kynningartexta með íslenska liðinu á heimasíðu IHF er Birna Berg Haraldsdóttir sögð vera ein lykilkvenna íslenska landsliðsins. Birna Berg er ekki í 18 kvenna hópnum sem mætir í Stuttgart vegna heimsmeistaramótsins og nokkuð síðan að hún var í burðarhlutverki. Væntanlega hefur höfundur textans í tímariti þýska handknattleikssambandsins sparað sér vinnu með því að afrita textann af heimasíðu IHF í stað þess að heyra í þjálfara íslenska landsliðsins.
Eitt er alveg á hreinu
Eitt er þó alveg á hreinu og það er að íslenska landsliðið mætir þýska landsliðinu í upphafsleik heimsmeistaramótsins í Stuttgart í dag. Flautað verður til leik klukkan 18 og ætlar handbolti.is m.a. að fylgjast grannt með viðureigninni eins og öðrum leikjum Íslands á HM kvenna.



