- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skutum okkur út úr leiknum

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Við skutum okkur út úr þessum leik með því að skora ekki úr þeim færum sem við fengum. Ekki vantaði okkur færin en alls klúðruðum við 18 skotum í fyrri hálfleik. Þar lék Stefán Huldar markvörður Gróttu stórt hlutverk,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR, þungur á brún þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir átta marka tap fyrir Gróttu, 29:21, í Olísdeild karla í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld.


Kristinn benti á að hlutfallsmarkvarsla hjá Gróttu hafi verið 47,5% meðan hún var 19% hjá ÍR. Þar liggur gríðarlegur munur.

„Þegar skotnýtingin er svona þá er ekkert skrýtið þótt við séum undir. Upphafið var slæmt. Grótta skoraði þrjú fyrstu mörkin svo við fengum kannski ekki þá byrjun sem við vildum fá en við hefðum getað unnið okkur út úr þeirri stöðu. Það tókst ekki og eftir því sem á leið leikinn varð þetta erfiðara og erfiðara hjá okkur,“ sagði Kristinn og bætti við að ÍR hefði tekist að minnka muninn í fjögur mörk í fyrri hluta síðari hálfleiks áður en allt fór í skrúfuna á ný.

„Stefán varði og varði og við fengum á okkur til baka hraðaupphlaup og seinni bylgju mörk. Mörg smærri atriði komu okkur í koll. Í stað þess að nýta möguleikana á að minnka muninn þá töpuðum við boltanum á ódýran hátt og fengum á okkur hraðaupphlaup,“ sagði Kristinn sem var vonsvikinn enda hafði hann gert sér vonir um að geta krækt í stig í þessum leik. “Við ætlum reyndar að gera það í öllum leikjum en við töldum kannski meiri möguleika liggja gegn Gróttu en mörgum öðrum liðum í deildinni. Þessi leikur var okkar klúður,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -