- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skyndilega varð spenna eftir ládeyðu gestanna

Valur og ÍBV eigast við í Origohöllinni í kvöld í Olísdeild kvenna. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn ÍBV í kaflaskiptum toppslag í Olísdeild kvenna í handknattleik í Origohöllinni í kvöld, 23:21, eftir að hafa verið yfir, 15:9, að loknum fyrri hálfleik. Valur er þar með áfram efstur og taplaus í deildinni með sex stig en ÍBV hefur nú tapað sínum fyrstu stigum eftir tvo sigurleiki í upphafi mótsins.


Fyrstu 20 mínútur leiksins var sem eitt lið væri mætt til leiks í Origohöllinni og að hitt hafi hreinlega rekið inn nefið fyrir slysni. Valsliðið réði lögum og lofum. Leikmenn ÍBV voru miður sín og stemningslausar. Sóknarleikurinn var í molum. Birna Berg Haraldsdóttir skoraði fjögur fyrst mörkin á nærri því 20 mínútum meðan Valur skoraði 11. Hefði Marta Wawrzykowska, markvörður ÍBV, ekki verið nánast sú eina sem var með á nótunum hefði staðan verið enn verri.

Loksins

Eftir tvö leikhlé og messuhöld hjá þjálfara ÍBV tókst loksins að hleypa lífi í leikmen liðsins. Þeir skoruðu til að mynda þrjú mörk með skömmu millibili undir lok hálfleiksins og minnkuðu þá muninn úr 14:6 í 14:9. Staðan var því ekki eins slæm í hálfleik og útlit var fyrir lengi vel í fyrri hálfleiks.

Vopnin slegin úr höndunum

ÍBV-liðið sló vopnin úr höndum Valsara í upphafi síðari hálfleiks með því að klippa Elínu Rósu Magnúsdóttur út úr sóknarleiknum. Þrátt fyrir leikhlé Ágústs Þórs Jóhannssonar þjálfara Vals snemma í hálfleiknum tókst ekki að leysa klemmuna sem komin var í sóknarleikinn.

ÍBV skoraði fimm fyrstu mörk síðari hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 15:14. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hjó á hnútinn fyrir Val eftir nærri 14 mínútur í síðari hálfleik með fyrsta marki liðsins í hálfleiknum, 16:14. Valur náði góðum spretti upp úr því og komst yfir, 19:15. ÍBV-lagði ekki árar í bát og hélt áfram að anda ofan í hálsmálið á leikmönnum Vals. Marta Wawrzykowska stóð vaktina með prýði.

Minnstur varð munurinn eitt mark, 21:20, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Valur náði að hanga á forystunni auk þess sem brottrekstur Britney Cots, leikmanns ÍBV, þremur mínútum fyrir leikslok varð vatn á myllu Valsliðsins. Hin unga og efnilega Arna Karítas Eiríksdóttir vann tvö mikilvæg vítaköst á síðustu mínútunum sem Þórey Anna Ásgeirsdóttir skilaði í marknetið.
Mínútu fyrir leikslok var öll von ÍBV ekki úti. Munurinn var eitt mark. Sigríður skoraði 23. mark Vals. ÍBV fór í sókn og vann vítakast. Birnu Berg brást bogalistin 25 sekúndum fyrir leikslok og þá rann síðasti möguleikinn á öðru stiginu ÍBV úr greipum.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7/6, Sigríður Hauksdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 11, 35,5%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 10/5, Sunna Jónsdóttir 6, Britney Cots 2, Elísa Elíasdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 12, 35,3%.

Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -