„Við stefnum á efstu deild, ekkert annað,“ segir Kári Garðarsson ákveðinn en hann hefur á ný tekið við þjálfun kvennaliðs Gróttu eftir nokkra fjarveru. Hann þjálfaði kvennalið Gróttu um árabil og byggði upp lið sem var ógnarsterkt um skeið og vann allt sem hægt var að vinna hér heima á árunum 2015 og 2016.
Nú er Kári með annarskonar lið í höndunum skipað að uppistöðu til yngri og óreyndari leikmönnum, a.m.k. þegar litið er til þess liðs sem hann var með í höndum og áður er getið.
„Við erum með lið sem hefur lítið breyst síðustu tvö ár. Markmiðið er að halda áfram að byggja það upp í vetur. Nánast allir leikmenn eru uppaldir hjá Gróttu sem er einkar jákvætt,“ segir Kári sem er jafnframt framkvæmdastjóri Gróttu.
Kári reiknar með spennandi keppni í Grill 66-deildinni á leiktíðinni sem hefst í kvöld en Grótta leikur sinn fyrsta leik á morgun, laugardag klukkan 13.30 í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi gegn Fram 2. Grótta fær Aftureldingu í annarri umferð eftir viku, einnig á heimavelli. Liðið fær þar með alvöru prófraun í tveimur fyrstu umferðunum. Afturelding og Fram U eru meðal þeirra liða sem flestir telji að blandi sér í toppbaráttuna ásamt Gróttu og Selfoss, svo dæmi sé tekið.
„Annars rennum við nokkuð blint í sjóinn með styrkleika deildarinnar,“ sagði Kári sem að vanda horfir bjartsýnn fram á veginn.
Leikmannahópur Gróttu:
Markverðir:
Selma Þóra Jóhannsdóttir, Soffía Steingrímsdóttir og Joanna Siarova.
Línumenn:
Rut Bernódusdóttir, Edda Steingrímsdóttir.
Vinstra horn:
Helga Guðrún Sigurðardóttir, Steinunn Guðjónsdóttir, Thelma Rut Elíasdóttir
Skyttur:
Anna Lára Davíðsdóttir, Ágústa Huld Gunnarsdóttir, Katrín Helga Sigurbergsdóttir , Valgerður, Helga Ísaksdóttir, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Particia Dúa Thompson Landmark.
Hægra horn:
Tinna Valgerður Gísladóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir.
Leikir 1. umferðar í Grill 66-deild kvenna:
Föstudagur:
Austurberg: ÍR – Fjölnir/Fylkir, kl. 19.30.
Laugardagur:
Hertzhöllin: Grótta – Fram U, kl. 13.30.
Origohöllin: Valur U – Víkingur, kl. 18.
Sunnudagur:
Kórinn: HK U – Selfoss, kl. 19.30.