Íslenska landsliðið tapaði illa fyrir Svartfellingum, 36:27, í fyrsta leik sínum í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Westfalenhalle í Dortmund í kvöld. Staðan var 14:11. Með þessum sigri eru vonir íslenska landsliðsins að komast í átta liða úrslit alveg úr sögunni en til þess hefði þurft að vinna allar viðureignir í milliriðli.
Næsti leikur verður við Spánverja á fimmtudagskvöld klukkan 19.30. Spánn tapaði í dag fyrir Serbíu eftir æsilegan endasprett.
Leikurinn var afar þungur fyrir íslenska landsliðið, frá byrjun til enda. Upphafsmínúturnar voru erfiðar og markaði það framhaldið. Spenna var í leikmönnum að því er virtist og stemningin og baráttugleðin ekki sú sama og var í þremur fyrstu leikjunum í riðlakeppninni í Stuttgart.

Fyrri hálfleikur var æði kaflaskiptur hjá báðum liðum. Framan af var lítið skorað og t.d. var staðan, 6:5, fyrir Svartfellingum eftir 15 mínútur. Vörn Íslands hélt vel og Hafdís Renötudóttir var vel með á nótunum í markinu. Upp úr 20 mínútum kom nokkurra mínútna kafli og staðan breyttist úr 5:6 í 5:10 og aftur 7:13. Þá lifnaði yfir íslenska liðinu sem vann nokkra bolta í vörninni og náði hröðum upphlaupum sem skilaði sér í fjórum mörkum í röð. Staðan var skyndilega orðin 11:13 fyrir Svartfellinga sem skoruðu síðan mark hálfleiksins úr vítakasti. Staðan 11:14 eftir 30 mínútur.

Svartfellingar skoruðu þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og komust í þægilega stöðu. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði fyrsta mark Íslands eftir fimm mínútur, 12:17. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tók leikhlé eftir 10 mínútur og 9 sekúndur í síðari hálfleik. Ekki veitti af. Staðan var 13:24, eftir hvert axarskaftið á eftir öðru í vörn jafnt sem sókn.
Ekki tókst að klífa þrítugan hamarinn það sem eftir var. Útilokað virtist vera að koma til baka.
Lítil stemning
Þessi leikur var þungur fyrir íslenska liðið. Stemningin virtist ekki vera fyrir hendi frá upphafi. Varnarleikurinn var heilt yfir slakur þrátt fyrir örlitla spretti í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik varð hrun á fyrstu 10 mínútunum sem aldrei tókst að vinna sig út úr.
Mörk Íslands: Dana Björg Guðmundsdóttir 6, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Sandra Erlingsdóttir 3/1, Elísa Elíasdótti 1, Elín Klara Þorkelsdótti 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 5, 16% – Sara Sif Helgadóttir 1, 9%.
Handbolti.is var í Westfalenhallen og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.




