- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Slokknaði á okkur í síðari hálfleik

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, fyrir miðri mynd ásmt Andra Berg Haraldssyni aðstoðarþjálfara. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það loðir svolítið við okkur að detta niður á köflum í leikjum og það átti sér stað að þessu sinni,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir fimm marka tap fyrir Gróttu, 26:22, á heimavelli í 9. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.
Víkingar voru vel inn í leiknum í rúmar 40 mínútur og voru m.a. tvisvar sinnum með tveggja mark forskot snemma í síðari hálfleik áður en Gróttumenn sneru leiknum sér í hag á innan við tíu mínútum.

Mikill munur á milli hálfleika

„Varnarleikur var mjög góður í fyrri hálfleik og eins markvarslan. Til viðbótar var Hamza Kablouti frábær í sókninni. Í síðari hálfleik datt varnarleikurinn niður og sem dæmi má nefna að við vorum með 15 löglegar stöðvanir í fyrri hálfleik en aðeins sex í þeim síðari. Við vorum með sjö varin skot í fyrri hálfleik, þrjú í þeim síðari. Þetta er bara alltof lítið í stórleik.

Að sama skapi má segja að vörn og markvarsla vinni saman og það er ljóst við vorum alls ekki nógu beittir í vörninni í síðari hálfleik. Það er ein helsta ástæðan fyrir því hvernig fór,“ sagði Jón Gunnlaugur og viðurkenndi að það hafi slokknað á hans mönnum í síðari hálfleik eftir viðunandi fyrri hálfleik og jafna stöðu að honum loknum, 13:13.

Staðan í Olísdeild karla.

Gefur ákveðin fyrirheit

Jón Gunnlaugur sagði vilja taka eitt og annað jákvætt út úr leiknum sem hægt verður að byggja á í framhaldinu. „Leikurinn gefur ákveðin fyrirheit. Eftir slaka leiki þá mættu menn og gíruðu sig upp í hörkuleik og mikla baráttu. Stemningin var góð en vinnan er næg, hún heldur áfram og er þolinmæðisverk.“

Eins og kom fram að framan þá lék fransk/túníski leikmaðurinn Hamza Kablouti með Víkingi í gær í fyrsta sinn. Hann er á lánasamningi frá Aftureldingu í Fossvogi fram til áramóta.

Vinnum áfram að lausnum

„Kablouti skilað mörgum mörkum í dag en átti einnig nokkrar ákvarðanir sem voru okkur ekki hagstæðar. Kablouti var frábær í fyrri hálfleik. Hann kom okkur inn í leikinn undir lok hálfleiksins með fjórum mörkum í röð. Í síðari hálfleik stigu Gróttumenn aðeins út á móti Kablouti sem gerði honum erfiðara um vik. Við höldum áfram að vinna með honum að lausnum í sóknarleiknum. Það er engin spurning að Kablouti er flott viðbót í okkar hóp,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari karlaliðs Víkings í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -