Forráðamenn og leikmenn slóvenska landsliðsins í handknattleik geta að mörgu leyti sjálfum sér um kennt vegna matareitrunar sem kom upp í herbúðum þeirra á aðfaranótt síðasta sunnudags og fram eftir þeim degi. Nú er komið upp úr dúrnum að þeir pöntuðuð pizzur frá veitingastað utan hótelsins á laugardaginn.
Þessi staðreynd kom fram í gærkvöld eftir að farið hafði verið yfir hvað olli magakveisu og uppköstum hjá um helmingi slóvenska hópsins fyrir leikinn við Egypta. Létu forráðamenn handknattleikssambands Slóveníu að því liggja að mótshaldarar eða jafnvel Alþjóða handknattleikssambandið stæði að baki eitruninni. Spöruðu nokkrir ekki stóru orðin í þeim efnum.
Slóvenar voru víst orðnir leiðir á fremur einhæfu matarræði á hóteli sínu í Kaíró, sem blaðamaður handbolta.is gisti einnig í síðari viku dvalar sinnar ytra. Var ákveðið að panta mat utan hótelsins með þessum afleiðingum.
Slóvenar gerðu jafntefli við Egypta í lokaleik milliriðlakeppninnar með lasburða sveit og komust ekki í átta liða úrslit. Þeir hefðu þurft á sigri að halda í leiknum. Egyptar fór þar með áfram úr riðlinum ásamt Svíum.
Morten Henriksen, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, sem býr á sama hóteli og mörg lið, þar á meðal Slóvenar, segir við TV2 að ekki þurfi að koma á óvart þótt magakveisa geri var til sig meðal leikmanna liðanna á HM. Margir borði ósoðið grænmeti í talsverðu mæli þvert á ráðleggingar.