Óðum styttist í fyrri landsleik Íslands og Slóveníu í umspili um keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember. Fyrri viðureignin fer fram í Ljubljana í Slóveníu á laugardaginn en sú síðari í Schenkerhöllinni á Ásvöllum síðasta vetrardag.
Íslenska landsliðið hefur æft síðan rétt fyrir páska þegar undanþága fékkst til æfinga. Síðan hafa verið nær daglegar æfingar og verða allt þar til á fimmtudaginn að Arnar Pétursson, landsliðþjálfari heldur með sveit sína til Ljubljana.
Leikmenn slóvenska landsliðsins komu saman í morgun og fara þeir á sína fyrstu æfingu síðar í dag undir stjórn nýs þjálfara, Dragan Adzic. Hann var ráðinn í starfið um páskana eftir að Uros Bregar sagði óvænt starfi sínu lausu og tók við þjálfun serbneska landsliðsins. Adzic valdi á dögunum 23 leikmenn til æfinganna í vikunni fyrir fyrri viðureignina við Íslendinga.
Sem fyrr segir kom landslið Slóvena saman í morgun. Nokkrir leikmenn liðsins voru í eldlínunni með liðum sínum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar um nýliðna helgi eða voru við kappleiki með félagsliðum í deildarkeppni innan og utan fósturlandsins. Meðal leikmanna landsliðsins er Ana Gros sem er markahæst í Meistaradeildinni. Hún er komin í undanúrslit keppninnar með franska liðinu Brest Bretagne Handball.
Landslið Slóvena hafnaði í 16. sæti á EM kvenna í desember sl. og í 19. sæti á HM í Japan í desember 2019.