SC Magdeburg mátti þakka fyrir annað stigið úr viðureign sinni við HC Erlangen í þýsku 1. deildinni í dag þegar liðin mættust í Nürnberg, 31:31. Evrópumeistararnir voru undir allan leikinn en tókst að skora tvö síðustu mörkin og herja þannig út jafntefli. Hvorki Andri Már Rúnarsson né Viggó Kristjánsson léku með HC Erlangen í dag.
Erlangen-liðið fór á kostum í leiknum gegn Evrópumeisturunum, ekki síst í fyrri hálfleik. Leikmenn Magdeburg virtust lúnir eftir erfiðan útileik við Barcelona í Meistaradeildinni á fimmtudaginn. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:11, HC Erlangen í hag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði 11 mörk fyrir SC Magdeburg, fimm þeirra úr vítaköstum. Einnig gaf hann fjórar stoðsendingar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og átti sjö stoðsendingar.
Sem fyrr var Elvar Örn Jónsson mest með í varnarleik Magdeburg. Hann skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu.
Marek Nissen skoraði 10 mörk fyrir HC Erlangen og gaf fjórar stoðsendingar.
Kiel hefur ekki tapað stigi
Magdeburg er efst í þýsku 1. deildinni með níu stig eftir fimm leiki. Kiel er með átta stig en hefur lokið fjórum viðureignum. Gummersbach er næst með átta stig. Lemgo er þar á eftir með sjö stig. Gummersbach og Lemgo hafa lokið fimm leikjum hvort. Flensburg getur farið upp að hlið Gummersbach á morgun með sigri á Bergischer.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum í Evrópu er að finna hér.