- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sluppu með skrekkinn

Rúnar Kárson í skotstöðu og Daníel Þór Ingason fylgist með. Úr leik Ribe-Esbjerg og Skjern fyrr á leiktíðinni. Elvar Örn Jónsson til varnar. Mynd/Ribe-Esbjerg HH A/S

Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg slapp með skrekkinn og annað stigið úr viðureign sinni á heimavelli við Lemvig í fyrstu umferð í kjallarakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Hinn þrautreyndi markvörður Ribe-Esbjerg, Søren Rasmussen, varði vítakast á síðustu sekúndu og bjargaði þar með öðru stiginu úr leiknum þar sem Ribe-Esbjerg átti um skeið undir högg að sækja. Rasmussen undirstrikaði stórleik sinn með því að verja vítakastið en það var eitt af fjórum sem hann varði. Alls var hann með 44% hlutfallsmarkvörslu.


Rúnar Kárason skoraði tvö mörk í sex skotum fyrir Ribe-Esbjerg og átti auk þess fimm stoðsendingar. Daníel Þór Ingason náði sé ekki á strik í sóknarleiknum. Honum tókst ekki að skora í fjórum tilraunum en var með tvær stoðsendingar. Daníel Þór var umsvifamikill í vörn liðsins að vanda og var einu sinni vísað af leikvelli.


Í hinni viðureigninni í keppni neðri liða deildarinnar vann Mors-Thy öruggan sigur á Fredericia, 39:33. Leikið var í Fredericia.


Kjallarakeppnin fer þannig fram að liðin í 9.-13 mætast í einfaldri umferð. Það lið sem hafnaði í 14. sæti í deildinni er fallið og tekur ekki þátt.
Liðin í níunda og tíunda sæti byrja með tvö stig í heimanmund og það sem varð í 11. sæti með eitt stig og neðsta liðið hefur keppni með tvær hendur tómar. Venjulega er fimm lið í keppninni en vegna þess að Århus gafst upp á dögunum þá tekur liðið ekki þátt.

Að kjallarakeppninni lokinni leikur neðsta liðið gegn liði úr 1. deild um þátttökurétt í úrvalsdeild að ári.
Eftir leiki dagsins þá hefur Ribe-Esbjerg 3 stig, Mors-Thy 3 stig, Fredericia tvö og Lemvig eitt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -