- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sneru við taflinu á síðustu 10 mínútunum gegn Afríkumeisturunum

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna sigrinum í dag með vöskum hópi stuðningsfólks sem mættur er til Skoje. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, hóf keppni á heimsmeistaramótinu í Skopje í Norður Makedóníu á torsóttum sigri, 24:19, gegn Afríkumeisturum Angóla. Staðan var jöfn í hálfleik, 9:9.

Tíu mínútum fyrir leikslok var Angóla tveimur mörkum yfir, 18:16, og virtist ekki blása byrlega fyrir íslenska liðinu sem hafði lengst af átt undir högg að sækja. Sterkur varnarleikur og markvissari sóknarleikur á lokakaflanum sneri stöðunni íslenska liðinu í hag. Angólaliðið var ráðþrota og íslensku konurnar gengu á lagið og tryggðu sér sætan sigur og afar mikilvægan því tvö lið fara áfram úr hverjum riðli mótsins í 16-liða úrslit.

Næstu leikur íslenska landsliðsins á mótinu verður gegn Norður Makedóníu á föstudaginn klukkan 16. Norður Makedónía mætir bandaríska landsliðinu síðar í dag í hinni viðureign H-riðils.

Annars byrjaði íslenska liðið vel í dag. Það skoraði fjögur fyrstu mörkin og fimm af fyrstu sex, upphafsmínútunum ellefu. Eftir það fór sóknarleikurinn að mestu í baklás og boltinn tapaðist hvað eftir annað. Angólaliðið komst inn í leikinn og tókst að ná yfirhöndinni skömmu fyrir hálfleik, 9:8.

Sóknarleikurinn var áfram erfiður íslenska liðinu í síðari hálfleik gegn hávöxnum og sterkum leikmönnum Angóla. Það var ekki fyrr en á lokakaflanum þegar Afríkumeisturunum virtist þrjóta kraftar að íslenska liðinu tókst að snúa leiknum sér í hag og skoraði átta mörk á síðustu 10 mínútunum.

HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan

Mörk Íslands: Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5/2, Embla Steindórsdóttir 4/3, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1, Elísa Elíasdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10, 34%.

Mörk Angóla: Varanda Jorcela Mutoca Tumba 11, Afonsa Balbina Cassova Nunda 5/2, Carla Bernardeth Belo 1/1, Gomes Sandy Da Conceiçao Fernando 1, Bartolomeu Maude Kumbelembe Xavier 1.
Varin skot: Jaime Carla Nkonko Mulamba 5/1, 19%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.
Einnig var streymi frá leiknum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -