Sjókoma tók á móti íslenska landsliðinu þegar það kom til Kölnar undir kvöld eftir lestarferð frá München. Nokkuð hefur snjóað í nyrðri og vestari hluta Þýskalands í dag. Hefur það sett strik í samgöngureikninginn í dag. Tafir hafa verið á lestarferðum og kom íslenska landsliðið a.m.k. klukkustund síðar á hótel sitt í kvöld en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
Þæfingur og hálka er götum Kölnar. Á mogun á að frysta með sólskini og eftir helgina hitnar með rigninu.
Ekki stendur til hjá íslenska landsliðinu að æfa í Lanxess-Arena í kvöld. Lagt verður áfram á ráðin fyrir átökin við þýska landsliðið annað kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
(Smellið á myndirnar hér fyrir neðan til að sjá þær stærri).
Alfreð Gíslason og liðsmenn hans í þýska landsliðinu standa í sömu sporum og íslenska liðið þegar milliriðlakeppnin hefst.
Hvorugt liðið hefur stig. Þýska liðið kom snemma til Kölnar og æfði undir kvöld áður en blásið var til blaðamannafundar.