Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik tilkynnir í hádeginu í dag hvaða leikmenn hann velur til þess að taka þátt í tveimur síðustu leikjunum í undankeppni EM 2026. Fyrri leikurinn verður við landslið Bosníu í Sarajevo miðvikudaginn 7. maí en sá síðari í Laugardalshöll sunnudaginn 11. maí.
Ljóst er að Snorri Steinn hefur úr fleiri kostum að velja núna en þegar síðasti landsliðsgluggi stóð opinn. Þá voru reyndir leikmenn úr leik vegna meiðsla, m.a. Aron Pálmarsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon, Teitur Örn Einarsson, Viggó Kristjánsson og Viktor Gísli Hallgrímsson.
Arnar Freyr Arnarsson og Elliði Snær Viðarsson eru ennþá sjúkralista og þess vegna óvíst um þátttöku þeirra í leikjunum sem standa fyrir dyrum.
Íslenska landsliðið er í efsta sæti riðils þrjú í undankeppni EM 2026 með fullt hús stiga, átta, eftir fjóra leiki. Í mars, þegar síðustu leikir fóru fram, vann íslenska landsliðið gríska landsliðið örugglega í tveimur leikjum, heima og að heiman.