Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla tilkynnir val sitt á HM-hópnum fyrir vikulokin. Snorri Steinn sagði við handbolta.is í dag að hann vonist til að tími gefist til þess á fimmtudag fremur en föstudag.
18 leikmenn
„Ég ætla að velja keppnishópinn, átján leikmenn. Það er sá fjöldi leikmanna sem ég má tefla fram á HM,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að hann sæi ekki ástæðu til þess að velja fjölmennari hóp og halda einhverjum hálfvolgum fram eftir öllu. „Ég hefði viljað velja hópinn fyrr en meiðsli Ómars Inga settu strik í reikninginn,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Allur landsliðshópurinn kemur saman til æfinga 2. janúar. Fyrr gefst ekki tækifæri vegna þess að nokkrir leikmenn, ekki síst þeir sem leika í Þýskalandi eiga leiki á milli jóla og nýárs.
Tveir leikir í Svíþjóð
Leiknir verða tveir vináttuleikir við sænska landsliðið í Kristianstad 9. janúar og í Malmö tveimur dögum síðar áður en haldið verður til Zagreb.
Fyrsta viðureign Íslands á HM verður við landslið Grænhöfðaeyja 16. janúar. Tveimur dögum síðan verður leikið landslið Kúbu. Aftur líða tveir sólarhringar áður þriðji og síðasta leikurinn í verður gegn Slóvenum 20. janúar.
Þrjú lið halda áfram í milliriðlakeppnina sem leikin verður 22., 24. og 26. janúar, einnig í Zagreb.