Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla hefur þurft að gera breytingar til viðbótar á landsliðshópnum sem kemur saman í Aþenu í Grikklandi á morgun, mánudag. Benedikt Gunnar Óskarsson, Val og Andri Rúnarsson, SC DHfK Leipzig hafa verið kallaðir inn í landsliðið. Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg, og Þorsteinn Leó Gunnarsson, Afturelding, drógu sig úr hópnum.
Ekki kemur fram í tilkynnningu HSÍ af hvaða ástæðum Gísli Þorgeir og Þorsteinn Leó draga sig í hlé.
Hvorki Benedikt Gunnar né Andri Már eiga A-landsleiki að baki en báðir voru í bronsliði Íslands á HM 21 árs landsliða á síðasta sumri. Andri Már var í æfingahópnum fyrir EM í upphafi þessa árs.
Þrjár breytingar
Þar með hafa verið gerðar þrjár breytingar frá upphaflegum hóp sem Snorri Steinn valdi til þess að taka þátt í æfingum og leikjum í Aþenu á komandi dögum. Á dögunum varð Viktor Gísli Hallgrímsson, Nantes, að hætta við þátttöku með landsliðinu vegna meiðsla. Ágúst Elí Björgvinsson, Ribe-Esbjerg, hleypur í skarðið.
Vináttuleikir Grikklands og Íslands verða spilaðir í Aþenu 15. og 16. mars.
Ef ekki verða fleiri breytingar gerðar verður landsliðshópurinn í Aþenu skipaður eftirtöldum leikmönnum:
Markverðir:
Ágúst Elí Björgvinsson, Ribe-Esbjerg (48/2).
Björgvin Páll Gústavsson, Val (267/22).
Aðrir leikmenn:
Andri Már Rúnarsson, SC DHfK Leipzig (0/0).
Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen (94/98).
Benedikt Gunnar Óskarsson, Val (0/0).
Einar Þorsteinn Ólafsson, Fredericia HK (8/0).
Elliði Snær Viðarsson, Vfl Gummersbach (46/97).
Elvar Örn Jónsson, MT Melsungen (75/171).
Haukur Þrastarson, Industria Kielce (31/42).
Janus Daði Smárason, SC Magdeburg (80/130).
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen (36/104).
Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg (82/280).
Orri Freyr Þorkelsson, Sporting (10/9).
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad (72/207).
Stiven Tobar Valencia, Benfica (15/11).
Teitur Örn Einarsson, Flensburg-Handewitt (36/36).
Viggó Kristjánsson, Leipzig (53/149).
Ýmir Örn Gíslason, Rhein-Neckar Löwen (86/36).