Á morgun tilkynnir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, hvaða leikmenn hann kallar saman í keppnishópinn til þátttöku á Evrópumótinu sem hefst um miðjan janúar. Talið er víst að Snorri Steinn velji 18 leikmenn til þátttöku eins og hann hefur gert fyrir undanfarin stórmót. Ekki hægt að útiloka að hann velji einn til tvo leikmenn til viðbótar við þá sem taka munu þátt í æfingum hér á landi fyrir EM.
Verður Þorsteinn klár í slaginn?
Nokkrar vangaveltur eru uppi í aðdraganda valsins. Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur verið og er úr leik vegna nárameiðsla. Vonir standa til þess að Þorsteinn Leó verði búinn að ná heilsu þegar inn í EM verður komið.
Einn verður eftir heima
Eins er óvissa varðandi hvaða hornamenn verða valdir. Valið stendur helst á milli Bjarka Más Elíssonar, Orra Freys Þorkelssonar og Stiven Tobar Valencia í vinstra hornið. Víst er að einn verður eftir heima.
Óvissa með Sigvalda Björn
Svipað er upp á teningnum þegar kemur að hægra horninu. Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur verið töluvert frá vegna meiðsla síðustu vikur og óvissa er þar af leiðandi um þátttöku hans. Óðinn Þór Ríkharðsson má teljast öruggur um sína stöðu enda leikið vel í vetur eins og undanfarin ár. Eftir stendur þá sú spurning hver hlaupi í skarðið fyrir Sigvalda Björn ef hann verður ekki inni í myndinni að þessu sinni.
Þriðji markvörðurinn?
Til viðbótar verður forvitnilegt að sjá hvort þriðji markvörðurinn verður í EM-hópnum. Ágúst Elí Björgvinsson var þriðji markvörðurinn í hópnum í vináttuleikjum við Þýskalandi í lok október og byrjun nóvember. Hann kemur vart til álita að þessu sinni þar sem hann er án félags um þessar mundir. Einnig getur svo farið að Snorri Steinn haldi sig við tvo markverði eins og á síðustu tveimur stórmótum, EM 2024 og HM 2025. Þá er öruggt að engin breyting verði á og Viktor Gísli Hallgrímsson og Björgvin Páll Gústavsson standi vaktina.
Fjórtán öruggir?
Nær víst má heita að eftirtaldir 14 leikmenn verða í 18-manna EM-hópnum sé tekið mið af leikjunum tveimur við Þýskaland í vetur og hvernig leikmenn eru að standa sig hjá félagsliðum sínum:
Arnar Freyr Arnarsson.
Björgvin Páll Gústavsson.
Einar Þorsteinn Ólafsson.
Elliði Snær Viðarsson.
Elvar Örn Jónsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Haukur Þrastarson.
Janus Daði Smárason.
Óðinn Þór Ríkharðsson.
Ómar Ingi Magnússon.
Orri Freyr Þorkelsson.
Viggó Kristjánsson.
Viktor Gísli Hallgrímsson.
Ýmir Örn Gíslason.
Ofan á allt verður síðan að vona að þeir leikmenn landsliðsins sem eiga eftir að leika með félagsliðum sínum fram undir áramót komist í gegnum leikina án þess að meiðast alvarlega.
Fyrsta æfing 2. janúar
Fyrsta formlega æfing landsliðshópsins verður föstudaginn 2. janúar. Æft verður hér heima nokkra daga áður en haldið verður til þátttöku á alþjóðlegu móti í París. Frá París verður haldið til Kristianstad hvar leikir Íslands í riðlakeppninni fara fram 16., 18. og 20. janúar.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður gegn ítalska landsliðinu föstudaginn 16. janúar. Tveimur dögum síðar verður andstæðingurinn Pólland og hinn 20. janúar kemur röðin að leik við Ungverja. Tvö efstu lið riðilsins halda áfram keppni í milliriðli en tvö lið halda heim að riðlakeppninni lokinni.




