- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sögulegt í Garðinum – á annað hundrað markskot, markmenn í þrumustuði og 72 mörk

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Sögulegur handboltaleikur fór fram í Garðinum í dag þegar Víðir og ungmennalið Selfoss leiddu saman kappa sína í 2. deild karla í handknattleik. Það eitt og sér er e.t.v. ekki svo í frásögur færandi né úrslit leiksins sem Selfossliðið vann með 23 marka mun, 48:25. Það sem e.t.v. er hvað sögulegast er að markverðir beggja liða fór hamförum, sé að marka tölfræði þá birtist á HBStatz. Svo virðist ennfremur vera sem liðin hafi náð á annað hundrað markskotum í 60 mínútna leik.

Víst er sá sem tók niður tölfræðina var ekki öfundsverður af hlutverki sínu. Má segja, án þess að taka of djúpt í árinni, að um kraftaverk hafi um að ræða af hans hálfu að henda reiður á allt það sem fram fór á leikvellinum.

Mega þakka fyrir

Tölfræðin er hreint mögnuð. Tommy Cuong Vo, markvörður Víðis, átti stórkostlegan leik þótt hann hafi fengið á sig 48 mörk. Piltur varði 24 skot og ljóst að án stórleiks hans hefði leikurinn endað með ósköpum fyrir Víðisliðið.

Fóru með himinskautum

Ekki er nærri hálf sagan sögð því markverðir Selfossliðsins virðast hafa farið með himinskautum. Jón Þórarinn Þorsteinsson markvörður 21 árs landsliðsins varði 23 skot og Einar Gunnar Gunnlaugsson 19 skot. Samanlagt vörðu þeir félagar 44 skot og náðu þar með hlutfallsmarkvörslu upp á 64%.

Víðisliðið virðist hafa náð 67 skotum á markið í leiknum. Þá eru ótalin skot sem fóru framhjá eða yfir, því ekki er ósennilegt að einhver skot hafi algjörlega misst marks.

139 skot á mörkin

Selfoss liðið náði samtals 72 skotum á markið. Samanlagt hafa leikmenn liðanna hitt 139 sinnum á mörkin tvö á 60 mínútum samkvæmt bókhaldi HBStatz. Þá eru ótalin skot sem fóru framhjá eða yfir mörkin, eins og vill koma fyrir.

Fersku sjávarlofti að kenna?

Önnur eins skotgleði í einum handboltaleik er svo sannarlega saga til næst bæjar, jafn á þarnæsta. Hvort sjávarloftinu í Garðinum er um að kenna skal ósagt látið en fersk sjávarloft hefur aldrei gert mönnum annað en gott eitt.

Selfoss á toppinn

Í öllum þessum hamagangi var Selfoss með 14 marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 26:12. Selfoss settist í efsta sæti 2. deildar með sigrinum í leiknum og veitir mönnum vafalaust ekki að því að tylla sér meðan þeim rann móður. Selfoss er með sex stig eins og ÍH sem lokið hefur fjórum viðureignum.

Þrátt fyrir allt þá rekur Víðir lestina í deildinni án stiga að loknum fjórum leikjum.

Mörk Víðis: Eiður Björgvin Jónsson 8, Orfeus Andreou 5, Mohamed Ali Chagra 5, Jóel Freyr Magnússon 3, Szymon Kowal 3, Viktor Abdullah Fikrason 1.
Varin skot: Tommy Cuong Vo 24.

Mörk Selfoss U.: Jason Dagur Þórisson 11, Jason Dagur Þórisson 7, Valdimar Örn Ingvarsson 6, Dagur Rafn Gíslason 5, Kristján Emanuel Kristjánsson 5, Anton Breki Hjaltason 2, Haukur Páll Hallgrímsson 3, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Skarphéðinn Steinn Sveinsson 2, Daníel Arnar Víðisson 1, Guðmundur Steindórsson 1, Arnór Elí Kjartansson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 23, Einar Gunnar Gunnlaugsson 19.

Staðan og næstu leikir í 2.deild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -