Guðmundur Þórður Guðmundsson og liðsmenn hans í Fredericia HK komust í kvöld upp í annað sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Fredericia HK gerði sér lítið fyrir og lagði meistara GOG á heimavelli þeirra á Fjóni, 37:33. Þetta var fyrsti sigur Fredericia HK á heimavelli GOG, Gudmehallen, í 20 ár.
Fredericia HK hefur þar með 11 stig í öðru sæti deildarinnar eftir átta leiki, er fimm stigum á eftir Aalborg sem unnið hefur alla andstæðinga sína til þessa. Bjerringbro/Silkeborg hefur einnig 11 stig eins og Fredericia HK.
GOG er í fimmta sæti með 8 stig en ekki hefur gengið sem skildi hjá liðinu á leiktíðinni eftir þjálfaraskipti í sumar og aftur fyrir fáeinum vikum auk þess sem öflugir leikmenn fluttust til Þýskalands í sumar.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék annan leik sinn í röð með Fredericia HK eftir að hafa misst af fyrstu leikjum deildarinnar vegna axlarmeiðsla. Einar Þorsteinn stóð vaktina í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 17:17.
Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum handknattleiks í Evrópu er að finna hér.