Færeyska handknattleiksliðið H71 vann sögulegan sigur í dag á serbneska liðinu ZRK Naisa Nís í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna, 39:38. Leikið var í Nís í Serbíu og það sögulegasta er að um er að ræða fyrsta sigur færeysks kvennaliðs á útivelli í 16-liða úrslitum í Evrópukeppni félagsliða.
H71 braut blað í færeyskri handknattleikssögu með því að verða fyrst liða í 16-liða úrslit í í Evrópukeppni félagsliða, alltént í kvennaflokki. Nú á liðið möguleika á að komast í átta liða úrslit en síðari viðureignin verður í Þórshöfn á laugardaginn.
Á fyrri stigum keppninnar, þ.e. í fyrstu umferð og í 32-liða úrslitun vann H71 lið WHC Cair frá Norður Makedóníu og SPONO Eagles frá Sviss.
Árangur H71 er enn eitt merki um miklar framfarir í færeyskum handknattleik á undanförnum árum.
Sigur H71 í Nís í dag var engin tilviljun. Færeysku konurnar voru öflugri frá upphafi og voru m.a. með fjögurra marka forskot í hálfleik, 22:18. Aðeins dró saman með liðunum undir lokin en Hoyvík-liðinu tókst að halda sjó og vinna glæsilegan sigur í miklum markaleik.
ÍBV komst í dag í átta liða úrslit í þessari sömu keppni og H71 leikur í.