- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sóknarleikurinn brást HK og ÍBV gekk á lagið

Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV. Mynd/Facebooksíða ÍBV
- Auglýsing -

Tinna Laxdal skrifar:

HK tók á móti ÍBV í Kórnum í Kópavogi í dag og leiknum lauk með fjögurra marka sigri Eyjakvenna 25:21. Leikurinn byrjaði heldur fjörlega og var sóknarleikur beggja liða hraður og heldur mistækur. Birna Berg Haraldsdóttir lék á als oddi í fyrri hálfleik og skoraði 7 mörk, það sama má segja um Sigríði Hauksdóttur sem svaraði með 5 mörkum fyrir HK.

HK stúlkur mættu Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur mjög framarlega og tóku hana nær algjörlega út úr leiknum. Það hlutverk féll í hendur Elnu Ólafar Guðjónsdóttur en hún gerði 20 löglegar stöðvanir í leiknum. Elna Ólöf vildi ekki gera mikið úr góðum varnarleik sínum í dag, sagði hið augljósa að markmið varnarmannsins er alltaf að reyna að stoppa sóknarmanninn sem hann er á móti. Hún sagði að HK stúlkur fari í alla leiki til að sigra og í dag hafi sóknin verið þeim að falli, þar hafi þær gert mörg klaufaleg mistök. Hún er ánægð með liðið sitt og segir stemmninguna í hópnum vera góða og að þær hafi ekki pælt í tómri stúku heldur aðeins einbeitt sér að því að standa sig á vellinum.

Sigur liðsheildarinnar

Eyjastúlkur voru agaðar í sóknarleik sínum og það skilaði mörgum góðum færum, sérstaklega á hægri vængnum. Sunna Jónsdóttir átti fínan leik, en hún skoraði fimm mörk, skapaði tvö færi, var með þrjár löglegar stöðvanir og varði að auki tvö skot í hávörn. Sunna var valin í nýjasta landsliðshóp Arnars Péturssonar sem tilkynntur var í vikunni. Sunna var hress að leikslokum og sagði að það væri gott að fá tvö stig á erfiðum útivelli. Hún segir þetta hafa verið sigur liðsheildarinnar þar sem margar skiluðu sínu í dag. Hún var ánægð með Mörtu í markinu sem varði 14 skot. Sunna segir að það hafi verið aðeins öðruvísi að spila fyrir tómri stúku en hún sé fyrst og fremst ánægð með að fá að spila og æfa handbolta.

Sigríður Hauksdóttir átti afbragðsleik og hún sýndi hvers hún er megnug. Sigríður skilaði mörkum úr erfiðum og þröngum færum og en hún lét ekki þar við sitja því hún hefur einnig gott auga fyrir línuspili. Ásta Björt Júlíusdóttir var öryggið uppmálað á vítalínunni fyrir ÍBV og skoraði hún úr öllum vítunum sem ÍBV fékk í leiknum. Ásta Björt var einmitt markahæsti leikmaður Olís deildarinnar á síðasta tímabili þegar deildin var óvænt blásin af í mars.

Áhorfendur á netinu

Fyrr í dag var tilkynnt að áhorfendur væru ekki velkomnir á íþróttaviðburði þessa helgina. Áhorfendur þurftu þess vegna að láta útsendingu HK á youtube sér nægja, en þar fylgdust um það bil 120 manns með í beinni útsendingu.

Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá liði ÍBV með 10 mörk en Sunna Jónsdóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir gerðu 5 mörk hvor. 

Hjá HK var Sigríður Hauksdóttir markahæst með 9 mörk úr 10 tilraunum, á meðan frænka hennar Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir og Elna Ólöf Guðjónsdóttir gerðu 4 mörk hvor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -