- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sömu þjóðir í úrslitum og á HM fyrir 12 árum

Ludovic Fabregas var Svíum erfiður í leiknum í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Eins og á HM í handknattleik karla í Svíþjóð fyrir 12 árum þá mætast Frakkar og Danir í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Svíþjóð árið 2023. Franska landsliðið vann sænska landsliðið í síðari undanúrslitaleiknum í Stokkhólmi í kvöld, 31:26. Áður höfðu Danir unnið Spánverja í hinni viðureign undanúrslita, 26:23, í Gdansk í Póllandi.

Fyrir 12 árum mættust Svíar og Spánverjar einnig í leiknum um bronsið. Spánn vann með eins marks mun, 24:23.

Danir eru þar með öruggir um sæti í handknattleikskeppni næstu Ólympíuleika sama hvernig fer á sunnudaginn. Frakkar verða gestgjafar leikana og eiga þar með frátekið sæti. Danir taka þar með sæti heimsmeistara á leikunum þótt þeir tapi á sunnudag.


Frakkar voru sterkari í leiknum í kvöld og voru með yfirhöndina frá upphafi. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn fjögur mörk, 16:12. Svíum tókst að minnka muninn í tvö mörk þegar 12 mínútur voru eftir, 24:22. Þremur mörkum munaði, 26:23, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá vaknaði von hjá Svíum en þrjár slakar sóknir þyngdu róðurinn og gerðu hann loks ómögulegan.


Svíar þurftu að eiga toppleik til þess að vinna Frakka. Þeim tókst ekki að töfra hann fram að þessu sinni. Mjög miklu munaði að Jim Gottfridsson var ekki með eftir að hafa handarbrotnað gegn Egyptum í fyrrakvöld. Andreas Palicka náði sér ekki á strik í síðari hálfleik og Felix Claar, sem kom í stað Gottfridsson, stóðst ekki álagið.


Eins og venjulega eru Frakkar óárennilegir þegar mest á reynir á stórmótum.


Franska landsliðið vann úrslitaleikinn við Dani fyrir 12 árum eftir framlengingu í Malmö Arena, 37:35. Hvort Frakkar vinna aftur eða hvort þeir tapa eins í úrslitaleik HM 1993 í Gautaborg kemur í ljós. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 20 á sunnudagkvöld í Tele 2 Arena í Stokkhólmi.


Mörk Frakka: Ludovic Fabregas 6, Dika Mem 5, Kentin Mahe 5, Nedim Remili 4, Nicolas Tournat 4, Yanis Lenne 3, Elohim Prandi 2, Dylan Nahi 1, Romain Lagarde 1.
Mörk Svíþjóðar: Eric Johansson 5, Daniel Pettersson 4, Jonathan Carlsbogard 4, Felix Claar 3, Hampus Wanne 2, Niclas Ekberg 2, Oscar Bergendahl 2, Albin Lagergren 2, Lukas Sandell 1, Max Darj 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -