Spænska handknattleikssambandið hefur kært til lögreglu kynþáttaníð og hatursorðræðu sem leikmenn kvennalandsliðsins urðu fyrir á samfélagsmiðlum meðan þeir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í Þýskalandi á dögunum.
Ekki síst var ráðist að leikmönnum landsliðsins með niðrandi skrifum eftir tapleikinn gegn Færeyingum í riðlakeppninni. Sneru skrifin m.a. að húðlit leikmanna.
Með öllu ólíðandi
Forseti spænska handknattleikssambandsins, Francisco V. Blázquez, segir í harðorðri yfirlýsingu að hatur af þeim toga sem leikmenn landsliðsins hafi orðið fyrir, m.a. vegna húðlitar og kynþáttar, væri með öllu ólíðandi. Kynþáttafordómar eigi hvergi að eiga griðarstað. Þess vegna hafi verið ákveðið að kæra öll ummæli sem sneru að fordómum í garð leikmanna og stjórnenda liðsins er snerti húðlit, kynferði, uppruna eða trú.
Fara alla leið
Blázquez segir enn fremur að farið verði með málin eins langt í dómskerfinu á Spáni og þörf verður á til þess að draga fordómafullt fólk til ábyrgðar á ummælum sínum.
Blázquez segir enn fremur að ákveðið hafi verið að bíða með kærur til lögreglu þar til spænska liðið hafi lokið keppni á mótinu, sem var um síðustu helgi.




