Franska handknattleiksmanninum Noah Virgil Angelo Bardou hjá Herði á Ísafirði er frjálst að róa á önnur mið.
Hlaðavarpsþátturinn Handkastið hefur heimildir fyrir þessu og segir umsjónarmaður nýjasta þáttarins, sem kom út í gærkvöld, að Bardou megi vera áfram á Ísafirði en sé einnig frjálst að fara til annars liðs hér innanlands. Ekki er útlit fyrir að til þess komi í bráð vegna þess að lokað er fyrir félagaskipti innanlands frá deginum í dag, 1. nóvember, til 7. janúar á næsta ári. Tímabundin félagaskipti eru þó heimil á tímabilinu 1. júní til 1. febrúar ár hvert.
Samkvæmt þessu virðist ekki vera lengur brennandi þörf fyrir krafta Bardou innan raða Harðarliðsins og staða hans í talsverðri óvissu. Hann var ekki í leikmannahópi Harðar gegn Aftureldingu í 7. umferð Olísdeildarinnar á sunnudaginn á Tofnesi.
Bardou er stór og sterkleg hægri handar skytta sem kom til Harðar í ágúst frá US Ivry í Frakklandi. Hann hefur tekið þátt í fimm leikjum í Olísdeildinni og skorað 14 mörk.