- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stærri, sterkari og fljótari leikmenn en maður er vanur að mæta

Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskona í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við höfum fengið að sjá hvar við stöndum eftir að hafa mætt tveimur góðum liðum fram til þessa á mótinu. Sannarlega hefur þetta verið erfitt en mér finnst við hafa staðið okkur nokkuð vel, ekki síst þegar líður á leikina. Þá hefur okkur gengið betur að sýna hvers við erum megnugar,“ sagði landsliðskonan og hjúkrunarfræðingurinn Berglind Þorsteinsdóttir þegar handbolti.is hitti hana að máli á hóteli landsliðsins í Stavangri í dag.

Verk að vinna

„Leikmennirnir stærri, sterkari og fljótari en þeir sem maður er vanur að eiga við í Olísdeildinni enda er maður kominn á talsvert stærra svið á heimsmeistaramóti. Ég geri mér grein fyrir að ég á eitthvað í land að ná þeim bestu en ég hef þá líka verk að vinna á næstunni að bæta mig. Það er næsta verkefni enda langar okkur öllum á EM eftir ár,“ sagði Berglind og bætir við að eftir því sem leikjunum fjölgar þá nái leikmenn betur saman. Fæstir leikmanna landsliðsins hafa leikið oft saman, hvort heldur með félagsliðum eða landsliðum.

Nær vel saman með Katrínu

Nefnir hún sem dæmi stöllu sína í vörninni, Katrínu Tinnu Jensdóttur. Báðar eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og hafa þess utan ekki leikið saman með landsliði að neinu marki áður og þaðan af síður með félagsliði. Margir sjá einmitt Berglindi og Katrínu Tinnu fyrir sér sem framtíðar leikmenn í hjarta íslensku varnarinnar.


„Mér finnst við Katrín hafa náð vel saman þann stutta tíma sem við höfum verið saman í vörninni. Vonandi þróast bara okkar samstarf enn meira með fleiri leikjum og aukinni reynslu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við eigum möguleika til að ná enn betur saman með fleiri leikjum,“ sagði Berglind.

Hreint fáránlega fljótar

Berglind nefnir sem dæmi hið þrautþjálfaða franska landsliðsins sem hefur á að skipa nær eingöngu leikmönnum með félagsliðum sem leika í Meistaradeildinni.

„Þær voru hreint fáranlega fljótar. Maður var bara á sprettinum í kringum þær og svo var engu líkara en að þær hefðu bara ekkert fyrir þessu.

Það er hreinn heiður að fá tækifæri til að mæta franska landsliðinu og eins því norska sem við spiluðum við um síðustu helgi í Lillehammer. Maður lærir mikið af leikjunum,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir sem milli þess að æfa og leika handknattleik vinnur sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum á Hringbraut. Hún útskrifaðist í byrjun sumars.

Hverjar eru konurnar 18 í fyrsta HM-hópnum í 12 ár?

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -