0
Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri segir það mikið fagnaðarefni að allir endar hafi verið hnýttir í samstarfi sambandsins við íþróttavöruframleiðandann Adidas til næstu fjögurra ára. Samningaviðræður og frágangur samninga hafi tekið sinn tíma en um leið sé afar mikilvægt að hafa allt á hreinu. Skammur tími er þangað til kvennalandsliðið hefur keppni á Evrópumótinu í Austurríki, eða annan föstudag. Um leið og Róbert býður Adidas velkomið til samstarfs þakkar hann Kempa fyrir hönd HSÍ fyrir 20 ára farsælt samstarf.
HSÍ er aðeins þriðja handknattleikssambandið í Evrópu sem er með samning við Adidas. Hin tvö eru það franska og ungverska. Langt er um liðið síðan Adidas var síðast í samstarfi við landslið í norður-Evrópu og nærri þrír áratugir síðan íslenska landsliðið klæddist síðast keppnis- og æfingafatnaði frá Adidas.
„Við erum afar stoltir af þessu samstarfi. Eins og alþjóð veit þá er Adidas einn stærsti íþróttavöruframleiðandi heims. Samningurinn er góður fyrir Adidas og ekki síður okkur,“ segir Róbert í samtali við handbolta.is.
Í jólapakkann?
Mörgum leikur eflaust hugur á að eignast nýju landsliðstreyjuna eða að lauma henni í jólapappír og undir jólatré. Róbert segir sölu á landsliðbúningum ekki verða á könnu HSÍ heldur Adidas og umboðsaðila þess hér á landi.
„Það er forgangsmál okkar, Adidas og umboðsaðila þess hér á landi og treyjurnar verði komnar í sölu sem allra fyrst. Vonandi getum við greint nánar frá því í næstu viku hvernig sölunni verður háttað. Meginábyrgðin á sölunni verður á herðum Adidas um umboðsaðila fyrirtækisins hér á landi. Það er einn kosturinn við að vera í samstarfi við jafn stórt fyrirtæki og Adidas. Vonandi verður búningurinn sem víðast til sölu svo allir geti tryggt sér hann fyrir jólin,“ segir Róbert.
Skiptir gríðarlegu máli
Róbert segir samninginn við Adidas vera þann stærsta sem HSÍ hefur gert í sögu sinni þegar kemur að búningum og klæðnaði landsliðsfólks og þjálfara. „Samningurinn er mjög stór og skiptir okkur gríðarlegu máli. Við erum mjög stoltir yfir að Adidas hafi valið okkur til samstafs.“
Frumkvæðið var HSÍ
Róbert segir að þegar séð var fyrir endann á samningnum við Kempa hafi verið ákveðið að heyra í nokkrum íþróttavöruframleiðendum vegna samstarfs. „Frumkvæðið var okkur að ræða við nokkra aðila, kanna hvað var í boði og hverjir væru tilbúnir í viðræður. Mörg merki sýndu þessu áhuga en við fórum aldrei í miklar viðræður við aðra en Kempa og Adidas,“ segir Róbert.
Sjö landslið á stórmótum
Næsta árið taka bæði A-landsliðin þátt í lokamótum stórmóta auk þess sem fimm yngri landslið taka þátt í heims- eða Evrópumótum næsta sumar. Þar á ofan eru þrjú yngri landslið við æfingar. Ljóst er að mikið þarf af búningum jafnt til æfinga og keppni auk allskyns búnaðar annars því hvergi má annað íþróttavörumerki sjást. Róbert segir umfangið vera mjög mikið.
Mörg landslið til fyrirmyndar
„Það er ljóst að mikið þarf að vera til af búningum, æfingafatnaði, sokkum, töskum og fleiru. Þessi samningur skiptir miklu máli og tryggir að landsliðin okkar verða til fyrirmyndar næstu árin,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ.
Lengra myndskeiðsviðtal við Róbert Geir er efst í þessari frétt.
HSÍ og Adidas hafa samið til fjögurra ára