- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stefán hættir þjálfun Fram í vor eftir níu ár

Stefán Arnarson, þjálfari Fram ræðir við leikmenn sína. Hann hættir í vor. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stefán Arnarson hefur ákveðið að hætta þjálfun kvennaliðs Fram í lok keppnistímabilsins. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Stefán, sem stendur á sextugu, hefur þjálfað kvennalið Fram í níu ár og hefur verið einstaklega sigursæll. M.a. varð Fram Íslands- og deildarmeistari á síðasta keppnistímabili í Olísdeildinni.

Nokkuð mun vera síðan að Stefán ákvað að halda ekki áfram hjá Fram og tilkynnti stjórn handknattleiksdeildar ákvörðun sína.


Heimildir handbolta.is herma að Einar Jónsson taki við þjálfun kvennaliðs Fram af Stefáni en hann er nú þjálfari karlaliðs Framara. Hvort Einar verði með bæði karla- og kvennaliðið eða einbeiti sér að öðru liðinu er handbolta.is ekki ljóst. Einar stýrði báðum meistaraflokksliðum Fram eitt keppnistímabil fyrir ríflega áratug.

Óvíst er á þessari stundu hvað Stefán tekur sér fyrir hendur þegar starfstíma hans hjá Fram lýkur í vor. Vafalaust verður hann ekki lengi án atvinnu við þjálfun ef að líkum lætur.

Stefán er sigursælasti handknattleiksþjálfari landsins á þessari öld, alltént í kvennaflokki. Hann hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari sem þjálfari Fram, Vals og Víkings, sjö sinnum orðið deildarmeistari og fimm sinnum bikarmeistari.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -