Nýliðar Gróttu voru mikið betri en ÍR-ingar í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Heimamenn voru með átta marka forystu þegar leiknum lauk, 29:21. Stefán Huldar Stefánsson fór á kostum í marki Gróttu og varði eins og berserkur. Hann lagði drjúgt lóð á vogarskálar Gróttu liðsins í fyrsta sigri liðsins í deildinni á leiktíðinni. Sigurinn flytur Gróttu upp í áttunda sæti, a.m.k. í bili. ÍR-ingar reka lestina sem fyrr án stiga.
Einnig var átta marka munur að loknum fyrri hálfleik, 16:8. ÍR-ingar byrjuðu illa og náðu sér lítt á strik nema á upphafskafla síðari hálfleiks þegar þeim tókst að minnka muninn í fjögur mörk. Nær komust þeir ekki.
Leikmenn ÍR virtust ekki átta sig á því að keppni á Íslandsmótinu væri hafin á nýjan leik ef marka má leik liðsins í fyrri hálfleik þar sem Gróttumenn réðu lögum og lofum.
Grótta skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins og hélt yfirburðastöðu allan hálfleikinn. ÍR-ingar skoruðu ekki sitt þriðja mark fyrr en fyrri hálfleiku var hálfnaður, 9:3. Þegar hálfleikurinn var úti var átta marka munur, 16:8.
ÍR-ingar virtust vakna upp af svefni í byrjun síðari hálfleiks. Þegar tíu mínútu voru liðnar var munurinn kominn niður í fjögur mörk, 18:14. Nær komust þeir þó ekki. Gróttumenn bitu frá sér á nýjan leik og leiðir skildu.
Stefán Huldar, markvörður Gróttu, hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og varði eins og berserkur. Hann gerði alveg út um vonir ÍR-inga með stórleik sínum. Ekki í fyrsta sinn sem hann fer á kostum í Gróttumarkinu á leiktíðinni. Stefán Huldar reyndist Stjörnumönnum óþægur ljár í þúfu í byrjun tímabilsins. Einnig var Andri Þór Helgason öflugur, ekki síst var hann öruggur í vítaköstum og var með fullkomna nýtingu í sjö tilraunum.
Markverðir ÍR-inga virtust miður sín og vörðu fá skot. Til viðbótar var skotnýting leikmanna ÍR slök og ljóst að enn vantar uppá hjá liðinu eftir hléið langa frá keppni á Íslandsmótinu.
Mörk Gróttu: Andri Þór Helgason 7/7, Birgir Steinn Jónsson 5, Gunnar Dan Hlynsson 4, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 4, Daníel Örn Griffin 3, Jakob Ingi Stefánsson 2, Satoru Goto 2, Hannes Grimm 1, Ólafur Brim Stefánsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson, 19 skot – 47,5%.
Mörk ÍR: Andri Heimir Friðriksson 4/2, Sveinn Brynjar Matthíasson 4, Ólafur Haukur Matthíasson 4, Gunnar Valdimar Johnsen 3, Úlfur Gunnar Kjartansson 3, Viktor Sigurðsson 2, Bjarki Steinn Þórisson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 4 skot – 25%, Óðinn Sigurðsson 2 – 11,1%.