- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stefán Rafn hefur ákveðið að rifa seglin – varð meistari í fjórum löndum

Stefán Rafn Sigurmannsson flutti heim snemma árs 2021. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson hefur ákveðið að láta gott heita á handknattleiksvellinum. Hann staðfesti ákvörðun sína í samtali við Vísir í kvöld eftir að Haukar féllu úr leik í úrslitakeppninni með öðru tapi fyrir ÍBV á Ásvöllum, 37:31.

Stefán Rafn verður 34 ára gamall á árinu. Hann flutti heim snemma árs 2021 eftir afar farsælan feril sem atvinnumaður um níu ára skeið. Stefán Rafn lék í fjögur ár með Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Eftir það var hann í ár hjá Aalborg Håndbold áður en ungverska stórliðið Pick Szeged keypti Hafnfirðinginn undan samning. Með Szeged var Stefán Rafn í fjögur ár við afar góðan orðstír.

Meistari í fjórum löndum

Með Rhein-Neckar Löwen varð Stefán þýskur meistari 2016 þegar liðið vann meistaratitilinn í fyrsta sinn. Þremur árum áður var Stefán í sigurliði félagsins í EHF-bikarnum. Áður en Stefán Rafn kvaddi Álaborg varð hann danskur meistari með Aalborg Håndbold.

Með Pick Szeged varð Stefán Rafn ungverskur meistari 2018 þegar lið félagsins vann meistaratitilinn í fyrsta sinn í 11 ár. Árið eftir vann Stefán ungversku bikarkeppnina með Pick Szeged.

Hér heima hefur Stefán Rafn aðeins leikið með Haukum og orðið þrisvar Íslandsmeistari.

Fjögur stórmót

Stefán Rafn hefur leikið 72 landsleiki og skorað í þeim 96 mörk. Stórmótin voru fjögur, EM 2014 og 2016 og HM 2013 og 2015.
Síðustu ár hafa meiðsli sett talsvert strik í reikninginn hjá Stefáni Rafni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -