- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stefán Rafn mætti til leiks eftir langa fjarveru

Stefán Rafn Sigurmannsson flutti heim snemma árs 2021. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

Stefán Rafn Sigurmannsson lék sinn fyrsta keppnisleik í um eitt og hálft ár þegar hann steig út á gólfið í Schenkerhöllinni í kvöld og skoraði sex mörk fyrir Hauka í eins marks sigri á Stjörnunni, 26:25, í Olísdeild karla í handknattleik. Þetta var um leið fyrsti kappleikur Stefáns Rafns með Haukum í nærri níu ár. Vonandi markar þátttaka hans í leiknum í kvöld endalok á langvarandi og þrálátum meiðslum sem neyddu hann m.a. til þess að gefa ferilinn hjá ungverska stórliðinu Pick Szeged upp á bátinn og flytja heim.

Haukar halda þar með áfram góðri forystu í efsta sæti Olísdeildar. Stjarnan er um miðja deild.


Haukar voru sterkari í fyrri hálfleik og voru með fimm marka forskot, 16:11, að honum loknum eftir að hafa náð sex marka forskoti snemma leiks, 9:3. Stjörnumenn brugðu á það ráð að leika með sjö menn í sókn sem hreif á Haukamenn. Þegar til viðbótar bættist við stórleikur Sigurðar Dans Óskarssonar í marki Stjörnunnar í síðari hálfleik var úr jafnari leikur þegar á leið síðari hálfleik. Haukar misstu þó aldrei yfirhöndina. Leó Snær Pétursson minnkaði muninn í eitt mark úr vítakasti þegar skammt var eftir af leiknum. Nær komust Garðbæingar ekki að þessu sinni.


Önnur gleðitíðindi úr herbúðum Hauka fyrir utan komu Stefáns Rafns er að Geir Guðmundsson lék með í kvöld. Hann hefur verið frá keppni um skeið eftir að hafa rotast í viðureign gegn ÍR 22. febrúar. Geir skoraði tvö mörk að þessu sinni.


Mörk Hauka: Stefán Rafn Sigurmannsson 6/1, Ólafur Ægir Ólafsson 6, Atli Már Báruson 5, Geir Guðmundsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Halldór Ingi Jónasson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Andri Sigmarsson Scheving 15, 37,5 %.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 7/4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 4, Pétur Árni Hauksson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Hjálmtýr Alfreðsson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 2, Arnar Máni Rúnarsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 11, 40,7% – Adam Thorstensen 0.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -