„Eins og staðan er í morgunsárið þá stefnum við á að leika heima og að heiman,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH spurður um hvort eitthvað hafi verið ákveðið um væntanlega leiki karlaliðs FH við HC Robe Zubří frá Tékklandi í Evrópbikarkeppninni. Stefnt er á að leikirnir fari fram aðra og þriðju helgina i desember.
Ásgeir segir að eins og sakir standa sé ekki gagnkvæmur áhugi á leika báða leikina annað hvort hér á landi eða í Tékklandi.
„Nú bíðum við eftir nýrri reglugerð frá sóttvarnarlækni og heilbrigðisráðuneytinu sem tekur gildi 2. desember. Í dag eru miklar kröfur og reglur á Íslandi sem Tékkarnir eiga erfitt með vegna komu sinnar hingað. Mikill kostnaður vegna aðbúnaðar og hætta á sóttkví við skimun á landamærum og margt fleira sem ber að hafa í huga,“ sagði Ásgeir sem undirstrikar að ríkur áhugi sé fyrir hendi af hálfu beggja liða að leikirnir fari fram.
„Við erum á fullu við að reyna að ná þessu saman svo af leikjunum geti orðið. Bæði félög eru mjög spennt fyrir verkefninu. Sjáum til hvað dagurinn ber í skauti sér,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, við handbolta.is.