Rúm vika er þangað til ársþing Handknattleikssamband Íslands verður haldið. Allt stefnir í að sjálfkjörið verði í þau fimm sæti sem kosið verður um til stjórnar sambandsins. Engin mótframboð hafa borist en framboðsfrestur rann út fyrir nærri tveimur vikum.
Þrír varamenn stjórnar, sem þegar sitja, gefa kost á sér til endurkjörs. Varamenn eru kjörnir til eins árs í senn. Þau eru Alfreð Örn Finnsson, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Ragnar Lárus Kristjánsson.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður, gefur einn kost á sér í kjöri til formanns HSÍ.
Reynir Stefánsson sem kom inn sem varaformaður fyrir ári gefur einnig einn kost á sér í stól varaformanns. Reynir var kjörinn í stjórn fyrir tveimur árum og var þá formaður dómaranefndar.
Inga Lilja Lárusdóttir er ein í kjöri til formanns fræðslu- og útbreiðslunefndar. Sömu sögu er að segja um Pál Þórólfsson sem er einn framboði til formanns landsliðsnefndar karla.
Davíð Lúther Sigurðsson hefur ekki setið í stjórn HSÍ. Hann gefur kost á sér til formanns markaðs- og kynningarnefndar HSÍ. Þar með má telja fullvíst að Jón Viðar Stefánsson, sem verið hefur formaður markaðs- og kynningarnefndar sækist ekki eftir endurkjöri.
Aðalmenn, þ.e formaður, varaformaður, og formenn nefndanna þriggja, eru kjörin til tveggja ára í senn.
Arnar Þorkelsson, gjaldkeri, Guðríður Guðjónsdóttir, formaður landsliðsnefndar kvenna, Kristín Þórðardóttir, formaður mótanefndar og Kristján Gaukur Kristjánsson formaður dómaranefndar voru kjörin til tveggja ára á þingi HSÍ fyrir ári.