Nær uppselt er á fyrri úrslitaleik Conservas Orbe Zendal BM Porriño og Vals í Evrópubikarkeppni kvenna sem fram fer í Porriño á Spáni á laugardaginn. Til sölu voru 2.000 miðar. Hafa þeir verið rifnir út og samkvæmt staðarblaðinu í Porriño eru fáir miðar eftir. Forráðamenn félagsins brugðu á það ráð í gær, þegar nærri 1.600 miðar í sæti voru seldir, að verða sér út um viðbótarstúkur sem eiga að rúma 400 áhorfendur til viðbótar.
Þar með verður rúm fyrir 2.000 áhorfendur í keppnishöllinni í Porriño sem er skammt frá hafnarborginni Vigo. Reikna má með rífandi stemningu síðdegis á laugardaginn. Um 70 stuðningsmenn Vals fylgja Íslandsmeisturunum á leikinn.
Miðasala hafin á heimaleik Vals
Síðari úrslitaleikur Vals og Conservas Orbe Zendal BM Porriño verður á Hlíðarenda laugardaginn 17. maí og hefst klukkan 15.
Miðasala er þegar byrjuð á Stubb. Auðveldast er að ná sér í miða í gegnum smáforrit Stubbs. Fullvíst má telja að einnig verði uppselt í N1-höllinni á Hlíðarenda laugardaginn 17. maí og tilvalið að verða sér út um aðgöngumiða sem fyrst enda úrslitaleikir í Evrópukeppni í handknattleik síður en svo daglegt brauð hér landi þótt þeir séu árlegur viðburður hjá Val.