„Steini verður með okkur á fullri ferð á æfingu í Malmö á morgun [fimmtudag]. Ef hann kemst 100% í gegnum hana þá getur vel verið að læknateymið gefi honum grænt ljós. Þá bætist hann við leikmannahópinn sem mér stendur til boða. Þannig að eitthvað er gott að gerast,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari spurður um Þorstein Leó Gunnarsson sem margra sjónir beinast að þegar Elvar Örn Jónsson er meiddur og verður ekkert meira með á EM.
Úr leik í tvo mánuði
Þorsteinn Leó tognaði á nára í kappleik með Porto um miðjan nóvember og hefur ekkert leikið handknattleik síðan. Engu að síður er hann í 18 manna hópnum sem fór til Svíþjóðar til þess að taka þátt í Evrópumótinu í handknattleik.

Verður að fara varlega í sakirnar
„Ef Steini fær grænt ljós þá verðum við að fara varlega með hann. Hann hefur ekki spilað handboltaleik í rúma tvo mánuði. Hann er ekki í mikilli leikæfingu. Við verðum að gæta þess að halda ekki að Steini komi inn og reddi öllu. Það verða að vera einhver mörk á því hvernig hann kemur inn í mótið til að forðast að illa fari,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson í viðtali við handbolta.is áður landsliðið fór frá Kristianstad eftir hádegið í dag.
Einum bætt við
Síðdegis var Elvar Ásgeirsson leikmaður Ribe-Esbjerg kallaður til við íslenska landsliðið sem kom til Malmö um miðjan dag. Elvar verður þar með 18. maðurinn í íslenska hópnum eftir að Elvar Örn Jónsson varð því miður að draga sig úr eftir að hann handarbaksbrotnaði í viðureigninni við Ungverja í gærkvöld.


