„Margar efnilegar fá í staðinn tækifæri til þess að koma inn á æfingar þegar aðrar eru ekki með. Það er þeirra að nýta tímann sem þær fá. Mér finnst þær koma flottar inn,“ segir Steinunn Björnsdóttir landsliðkona í handknattleik spurð um hvernig sú æfingavika landsliðsins nýtist þegar um 10 leikmenn sem valdar voru geta ekki tekið þátt vegna meiðsla.
Mikið álag síðustu vikur og mánuði hefur komið í bakið á nokkrum landsliðskonum um þessar mundir.
Æfingavikunni, sem lýkur í dag, er ætlað að vera undirbúningur fyrir leikina við ísraelska landsliðið í umspili um sæti á HM. Leikirnir fara fram hér á landi 9. og 10. apríl.
„Það er gott fyrir þær að kynnast umgjörðinni á nokkrum dögum í stað þess að koma inn rétt fyrir leiki,“ segir Steinunn sem ætlar að gefa kost á sér í landsliðið út tímabilið og þá í leikina við Ísrael.
Draumur að skila liðinu inn á HM
„Það væri draumur að eiga þátt í að skila liðinu inn á HM,“ segir Steinunn Björnsdóttir landsliðskona og leikmaður Fram.
Lengra viðtal við Steinunni í myndskeiði hér fyrir ofan.