Stelpurnar í U17 ára landsliði Íslands í handknattleik tóku stöllur sínar frá Tyrklandi í kennslustund í annarri umferð B-deildar Evrópumótsins í Klaipeta í Litáen í morgun. Þegar upp var staðið eftir frábæran leik íslenska liðsins var munurinn níu mörk, 28:19, eftir að fjórum mörkum munaði að loknum fyrri hálfleik, 14:10.
Þar með hefur íslenska liðið lokið tveimur leikjum á mótinu og unnið báða með talsverðum yfirburðum. Næsti leikur verður gegn Hvíta-Rússlandi á miðvikudaginn.
Eins og gegn Lettum í gær þá var hrollur í leikmönnum íslenska liðsins á upphafsmínútunum. Tyrkir skoruðu fimm af fyrstu sjö mörkunum. Ísland svaraði þá með fjórum mörkum í röð og komst yfir, 6:5. Eftir það lét Ísland forskotið aldrei af hendi. Það jók jafnt og þétt við til loka fyrri hálfleiks.
Í síðari hálfleik var um einstefnu að ræða af hálfu Íslands. Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik var munurinn orðinn sjö mörk, 20:13, og 11 marka munur var þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 27:16.
Vörn íslenska liðsins var frábær frá upphafi til enda. Til viðbótar voru markverðirnir Ingunn María Brynjarsdóttir og Elísa Helga Sigurðardóttir vel með á nótunum. Sú fyrrnefnda stóð lengst af í markinu og varði allt hvað af tók. Elísa Helga varði vítakast í síðari hálfleik og nokkur skot.
Sóknarleikurinn gekk liðlega auk þess sem mörg mörk voru skoruð eftir hraðaupphlaup sem voru vel útfærð og lauk nær undantekningarlaust með marki.
Lilja Ágústsdóttir var valin besti maður Íslands í leiknum í dag en Elín Klara Þorkelsdóttir í gær en það láðist að nefna það í frásögninni.
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Sara Dröfn Richardsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Amelía Dís Einarsdóttir 1.
Ingunn María Brynjarsdóttir varði 7 skot og Elísa Helga Sigurðardóttir varði 4 skot.
Íslenska liðið er því komið með fjögur stig í riðlinum en næstu tvo daga taka við æfingar hjá liðinu og leikur það næst á miðvikudaginn klukkan 12 að íslenskum tíma við Hvíta-Rússland. Sá leikur eins og aðrir leikir íslenska landsliðsins í mótinu verða sýndir endurgjaldslaust á ehftv.com