Skipuleggjendur Ólympíuleikanna sem fram eiga að fara í París sumarið 2024 eru sagðir hafa í hyggju að handknattleikskeppni leikanna fari alls ekki fram í París heldur á Pierre Mauroy-leikvangi í Lille.
Um þessar mundir er öllum steinum velt við í leit að ráðum til að draga úr útgjöldum vegna leikanna. Ein þeirra hugmynda er að handknattleikskeppnin verði flutt til Lille, í norðurhluta Frakklands, nærri landamærunum við Belgíu. Ríflega 200 km eru á milli Parísar og Lille.
Í Lille er glæsilegur knattspyrnuleikvangur sem oft hefur verið breytt í fjölnota íþróttahöll m.a. fyrir körfuknattleik, tennis og handknattleik. Úrslitahelgi HM í handbolta karla 2017 fór fram í Lille með góðum árangri en aðsókn var einstaklega góð.
Í haust var greint frá því, m.a. á handbolti.is að verið væri að kanna kosti þess að handknattleikskeppni leikanna fari fram á tennisvellinum á Roland Garros, einnig nefndur Philippe-Chatrier, þar sem keppt hefur verið á Opna franska meistaramótinu.
Nánar verður greint frá áformum Frakka um framkvæmd leikanna 17. desember.