- Auglýsing -
-Auglýsing-

Sterkur varnarleikur, hröð upphlaup og góðar skyttur

- Auglýsing -

Fáar þekkja betur til þýska handknattleiksins en Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona og leikmaður HSG Blomberg-Lippe. Hún hefur leikið í fimm ár í þýsku deildinni og mætt flestum leikmönnum þýska landsliðsins á þeim tíma auk þess sem tveir samherjar hennar hjá Blomberg-Lippe eiga sæti í þýska landsliðinu.

Sterkir einstaklingar

Díana segir það m.a. einkenna þýska liðið að það sé afar líkamlega sterkt. „Rík áhersla er lögð á varnarleik og markvörslu og hröðum upphlaupum fram völlinn þegar boltinn vinnst. Einnig eru sterkir einstaklingar sem skjóta vel á markið og vilja vinna maður á mann,“ segir Díana þegar handbolti.is fékk hana til þess að rýna aðeins í þýska landsliðið sem það íslenska mætir í upphafsleik heimsmeistaramótsins klukkan 17 í dag í Porsche Arena í Stuttgart.

Mikil samkeppni

„Það er sannarlega valinn maður í hverju rúmi og margir leikmenn ekki valdir sem eiga skilið að vera í hópnum. Samkeppnin er mikil,“ segir Díana Dögg sem er með reynslumeiri leikmönnum íslenska landsliðsins. Eftir því sem næst verður komist leikur Díana Dögg sinn 67. landsleik í dag.

„Þetta er krefjandi leikur en um leið verður gaman að eiga við þær. Okkar markmið er að gera betur en á síðasta ári,“ segir Díana Dögg og vísar til 11 marka taps íslenska liðsins, 30:19, fyrir Þýskalandi í riðlakeppni Evrópumótsins í Austurríki 3. desember í fyrra.

Leika stundum án línumanns

Díana Dögg segir breytingar hafa orðið á leikskipulagi þýska landsliðsins á síðasta ári. „Upp á síðkastið hefur þýska liðið farið út í að leik án línumanns sem verður til þess að varnarleikurinn verður meiri maður á mann. Það verður nýtt fyrir okkur að fást við þennan breytta sóknarleik.“

Einnig ræðir Díana Dögg um keppnishöllina, Porsche Arena, og stemninguna á handboltaleikjum sem fáir hafa náð betri tökum á en Þjóðverjar. Uppselt er á viðureign Íslands og Þýskalands í kvöld, sex þúsund áhorfendur verða á Þjóðverja nánast í hverju sæti.


Lengra viðtal við Díönu Dögg er að finna í myndskeiðinu hér fyrir ofan.

Viðureign Íslands og Þýskalands hefst klukkan 17 og verður fylgst með henni á handbolti.is.

HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni

Landslið Íslands á HM kvenna 2025

A-landslið kvenna – fréttasíða.

Fleiri myndskeið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -