„Þetta var karaktersigur hjá liðinu í kvöld því við höfðum alla trú á að við myndum vinna en vissulega var það erfitt,“ sagði Guðmundur Árni Ólafsson, hornamaður Aftureldingar, og annar af tveimur markahæstu mönnum liðsins í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni í kvöld eftir sigur Aftureldingar á Gróttu, 20:17, í upphafsleik 4. umferðar Olísdeildar karla.
„Grótta hefur sýnt það í fyrstu umferðunum að liðið er ekki auð unnið. Það hefur gert tvö jafntefli og tapað einum leik mjög naumlega sem segir manni að um gott lið sé að ræða. Grótta leikur einnig oft sjö á sex, það er sjö menn í sókn, sem lið eru ekki vön að leika gegn. Fyrir vikið verður takturinn öðruvísi en menn eru vanir. En við tökum tvö stig heim sem skiptir öllu máli,“ sagði Guðmundur Árni sem vill hrósa Gróttumönnum fyrir leikskipulag og aga.
„Þeir fara ekki framúr sér og þannig halda þeir sér í leikjunum og fara sér alls ekki að voða, leika á styrkleika sína. Það er erfitt að leika gegn hægari sóknarbolta þar sem andstæðingurinn leitar mjög vel að færum sínum. Greinilegt er að þjálfarateymið hjá Gróttu er að gera það mjög gott,“ sagði Guðmundur Árni.
Afturelding hefur sjö stig eftir fjóra leiki þrátt fyrir að nokkuð hafi verið um afföll í leikmannahópnum. Guðmundur sagði stöðuna vera jákvæða hjá liðinu um þessar mundir. Staðan væri góð. „Vonandi verður leiktímabilið lengra en í fyrra þannig að við verðum vonandi orðnir fullmannaðir þegar kemur að úrslitakeppninni í vor,“ sagði Guðmundur Árni Ólafsson, hornamaður Aftureldingar.