Stiven Tobar Valencia og félagar í Benfica höfðu betur í uppgjöri Lissabon-liðanna þegar þeir unnu meistara Sporting, 38:34, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Varnarleikur Sporting hrundi í síðari hálfleik með þeim afleiðingum að liðið fékk á sig 24 mörk. Stvien Tobar skoraði þrjú mörk í fjórum skotum.
Orri Freyr skoraði tvisvar í fjórum skotum fyrir Sporting sem tapaði þar með sínum fyrsta leik á keppnistímabilinu. Sporting tapaði einnig einum leik á síðasta tímabili en vann aðra leiki sína í deildinni, í úrslitakeppninni og bikarkeppninni.
Sporting deilir efsta sæti deildarinnar með Þorsteini Leó Gunnarssyni og liðsmönnum Porto. Hvort lið hefur 43 stig eftir 15 umferðir. Gefin eru þrjú stig fyrir sigur í deildinni, tvö fyrir jafntefli og eitt fyrir tap. Sporting hefur betur innbyrðis gegn Porto eftir sigur í fyrsta leik liðanna í deildinni fyrr í vetur.
Benfica er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig í 15, leikjum, sigurleikirnir eru 12 og töpin þrjú.
Stöðuna í portúgölsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.