ÍR og Stjarnan höfðu sætaskipti í Olísdeild kvenna í dag eftir að fyrrnefnda liðið vann viðureign liðanna afar örugglega í Hekluhöllinni í Garðabæ, 28:20. ÍR var átta mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:9, og náði 11 marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 20:9. Stjarnan skoraði ekki mark í nærri 17 mínútur frá síðari hluta fyrri hálfleiks fram yfir fyrstu mínútur síðari hálfleiks.
Eftir ákaflega gott gengi í deildinni eftir áramótin hefur ÍR náð saman 13 stigum þegar 16 umferðir eru að baki. Stjarnan er með 11 stig í sjötta sæti. Frammistaða liðsins í dag voru mikil vonbrigði eftir lengst af fínan leik gegn Fram fyrr í vikunni. Stjarnan vann tvær fyrri viðureignirnar við ÍR í Olísdeildinni í vetur með eins marks mun í hvort skipti.
Jafnt framan af
Framan af leiksins í dag benti fátt til þess að úr yrði einstefna af hálfu annars liðsins. Staðan var jöfn, 7:7, eftir um 12 mínútur og aftur 9:9 þegar Eva Björk Davíðsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna 11 og hálfri mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks. Þá stakk ÍR af. Varnarleikurinn var afar góður. Stjarnan fékk á sig tvo ruðningsdóma auk fleiri mistaka. Ofan á annað varði Ingunn María Brynjarsdóttir vel. Þegar hún var ekki á verði kom vítabaninn Hildur Öder Einarsdóttir inn á völlinn og varði vítakast. Hún varði annað í síðari hálfleik.
ÍR skoraði átta mörk í röð áður en fyrri hálfleikur var úti og hefði með smáheppni getað skoraði fleiri mörk. Góð tækifæri fóru forgörðum.
Róður Stjörnunnar var þungur þegar síðari hálfleikur hófst. Enn þyngdist hann á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks þegar ÍR skoraði þrjú mörk án þess að Stjarnan klóraði í bakkann. Forskot ÍR var 11 mörk, 20:9 og úrslitin ráðin.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 6/1, Embla Steindórsdóttir 5/3, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Anna Karen Hansdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 13, 31,7%.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 5, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 5, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 3/3, Vaka Líf Kristinsdóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Anna María Aðalsteinsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 14/1, 42,4% – Hildur Öder Einarsdóttir 2/2, 66,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.