Afturelding vann stórsigur á Stjörnunni, 40:21, að Varmá í kvöld í 19. umferð Olísdeildar karla. Stjörnuliðið var arfaslakt og mátti teljast vel sloppið að komast hjá enn stærra tapi. Aftureldingarmenn hafa þar með 27 stig þegar þeir eiga þrjá leiki eftir í deildinni, eru tveimur stigum á eftir FH sem trónir á toppnum sem fyrr. Stjarnan situr í 7. sæti með 18 stig.
Þægilegur dagur á skrifstofunni
Stjörnumenn virtust vera með hugann við eitthvað annað í fyrri hálfleik í kvöld en leikinn sem þeir voru að spila. Hugsanlega voru þeir ennþá í huganum á Ásvöllum. Hverju sem því líður þá var leikur Stjörnunnar hreint óboðlegur í fyrri hálfleik. Engu var líkara en á ferðinni væri lið sem væri fallið úr deildinni og hreinlega búið að missa móðinn.
Því miður þá hallaði undan fæti hjá Stjörnunni fremur en hitt eftir því sem á hálfleikinn leið og var allur botn dottinn úr síðustu mínúturnar. Mosfellingar létu ekki segja sér það tvisar. Þeir nýttu sér fjarveru Stjörnumanna til þess að vera með 12 marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja eftir 30 mínútna leik, 22:10.
Eftir hálfa níundu mínútu í síðari hálfleik sá Hrannar Guðmundsson þann einn kost í stöðunni að taka leikhlé. Staðan var 28:12 fyrir Aftureldingu og engin merki um að Stjörnumenn væru að rakna úr rotinu. Fátt breyttist til batnaðar eftir hléið.
Síðustu 15 til 20 mínúturnar tefldi Afturelding táningum sínum. Gunnar Magnússon þjálfari gat áhyggjulítið gefið þeim gott tækifæri án þess óttast að leikurinn tapaðist.
Þótt Tandri Már Konráðssson og Sigurður Dan Óskarsson hafi verið fjarverandi í þessum leik þá var það engin afsökun fyrir frammistöðu Stjörnunnar. Þeir sem tóku þátt í leiknum eiga að vera betri en það sem þeir sýndu að þessu sinni. Hverju sem um að kenna þá eiga menn alltaf að geta barist.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildinni.
Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 7/2, Hallur Arason 6, Ihor Kopyshynskyi 5, Stefán Magni Hjartarson 5, Kristján Ottó Hjálmsson 5, Blær Hinriksson 4, Árni Bragi Eyjólfsson 2, Ævar Smári Gunnarsson 2, Harri Halldórsson 2, Haukur Guðmundsson 2.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 7, 43,8% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 5, 29,4%.
Mörk Stjörnunnar: Sveinn Andri Sveinsson 4, Hans Jörgen Ólafsson 4, Ísak Logi Einarsson 4, Benedikt Marinó Herdísarson 3/1, Sigurður Jónsson 2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Daníel Karl Gunnarsson 1, Jóhannes Bjørgvin 1, Jóel Bernburg 1.
Varin skot: Baldur Ingi Pétursson 2, 18,2% – Adam Thorstensen 2, 6,1%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.