- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stolt yfir að vera hluti af liði sem náði langþráðu markmiði

Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og liðsmaður EH Aalborg. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Álaborgarliðið hefur verið að vinna að því hörðum höndum að komast upp í úrvalsdeildina á nýjan leik eftir að hafa fallið niður covidvorið þegar ekki var hægt að ljúka deildarkeppninni. Ég er gríðarlega stolt yfir að vera hluti af liðinu sem náði langþráðu markmiði,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og leikmaður danska liðsins EH Aalborg í samtali við handbolta.is í dag en á föstudagskvöldið tryggði liðið sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

EH Aalborg hefur unnið 18 leiki af 19 til þessa og þótt enn séu þrjár umferðir eftir eiga næstu lið á eftir ekki möguleika á að ná Álaborgarliðinu að stigum.

Efasemdir í haust

Elín Jóna segir að í upphafi keppnistímabilsins í haust hafi ríkt efi um að liðið væri nógu sterkt til þess að vinna deildina. Talsverðar breytingar áttu sér stað á leikmannahópnum frá síðasta keppnistímabili og það þótti ekki nógu sterkt.

„Nokkrir sterkir leikmenn fóru frá liðinu í sumar sem leið. Við létum það ekki á okkur fá heldur þjöppuðumst saman um að ná markmiðinu. Það er alveg hreint frábært,“ sagði Elín Jóna sem er ein þeirra sem gekk til liðs við EH Aalborg á síðasta sumri frá úrvalsdeildarliðinu Ringkøbing. Hún segist verða klár í slaginn í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

EH Aalborg tapaði í umspili um sæti í úrvalsdeildinni vorið 2021 og aftur 2023. Fyrir ári hafði liðið verið í forystusæti 1. deildar alla leiktíðina en tapaði síðasta leiknum, komst ekki beint upp, fór í umspil við Ajax úr úrvalsdeildinni sem tapaðist.

Tilbúin í úrvalsdeildina

„Ég er með samning til eins árs í viðbót og er tilbúin að halda áfram. Ég get sagt honum upp og stjórnendur félagsins geta líka gert það. Ég á ekki von á að breyting verði á því allir eru ánægðir með vinnuna sem fram hefur farið til þessa. Ég verð klár í slaginn í úrvalsdeildinni með EH Aalborg,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður þegar handbolti.is hitti hana að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í kvöld.

Elín Jóna verður eldlínunni með íslenska landsliðinu í handknattleik á miðvikudaginn á Ásvöllum gegn sænska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Frítt verður á leikinn í boði Arion banka.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -