„Ég er að sjálfsögðu mjög stoltur að eiga þessa drengi, það er ekki hægt annað,“ segir Gunnar Malmquist Gunnarsson, faðir landsliðsfyrirliðanna í handknattleik og knattspyrnu í samtali við Akureyri.net í dag og sagðist ekki geta neitað því þegar spurt var hvort hann væri ekki að rifna úr monti! Enda að sjálfsögðu engin ástæða til þess að leyna því.
Í dag var greint frá því að Arnór Þór Gunnarssonar verði fyrirliði landsliðsins í handknattleik í kvöld þegar það mætir Portúgal í undankeppni EM í Porto. Arnór er bróðir Arons Einars Gunnarssonar sem hefur um árabil verið fyrirliði landsliðsins í knattspyrnu.
„Það var mjög gaman að fá þær fréttir að honum hafi verið sýndur sá heiður að taka að sér þetta hlutverk, og ég hef fulla trú á honum sem fyrirliða,“ sagði Jóna Arnórsdóttir, móðir bræðranna, þar sem Skapti Hallgrímsson, ritstjóri Akureyri.net náði tali af henni á Kastrupflugvelli þar sem hún beið eftir flugi til Þýskalands. Jóna er á leið til eiginkonu Arnórs Þórs, Jóvönu Lilju Stefánsdóttur, til að létta undir með henni meðan Arnór Þór verður önnum kafinn með íslenska landsliðinu næstu vikur.
Arnór Þór kom inn á aðstoð móður sinnar og tengdamóður í samtali við handbolta.is á dögunum.