Þórður Már Sigfússon, skipulagsfræðingur og verkefnastjóri deiliskipulags nýrrar þjóðarhallar hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segir í samtali við handbolta.is að skipulagsvinna við nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir haldi áfram af fullum krafti. Stór áfangi átti sér stað í gær þegar borgarráð samþykkti að tillaga að breytingu á deiliskipulagi Laugardals yrði auglýst.
Ekkert hafi komið fram um að hætt verði við framkvæmdina en hugsanlega verði framkvæmdatíminn lengdur. Það er ekki í hans höndum að taka ákvörðun í þeim efnum.
Suðurlandsbraut setur skorður
„Skipulagsvinnan í tengslum við breytingu á deiliskipulagi Laugardals vegna uppbyggingar nýrrar þjóðarhallar hefur verið í fullum gangi síðustu mánuði. Líkt og gerist oft í skipulagsmálum þá tafðist vinnan vegna ýmissa þátta og þá er flækjustigið á svæðinu töluvert m.t.t. til veitumála og nálægðar við önnur íþróttamannvirki. Þá setur Suðurlandsbrautin skipulaginu töluverðar skorður,” segir Þórður Már og bætir við.
Engin tilviljun
„Staðsetning nýrrar þjóðarhallar er þó engin tilviljun. Hún er afrakstur umfangsmikillar undirbúningsvinnu og staðarvalsgreiningar, þar sem tekið var tillit til margra þátta. Það sem vó þó hvað þyngst í vali á þessari staðsetningu er tenging við fyrirhugaða Borgarlínustöð en stöðin verður steinsnar frá nýrri þjóðarhöll.“
Nýjar fordyr – fallegt kennileiti
„Þarna verður til nýtt hlið eða fordyri inn í Laugardalinn þar sem ný þjóðarhöll mun gegna veigamiklu hlutverki. Vegna stærðar sinnar verður hún væntanlega áberandi í umhverfinu og um leið fallegt kennileiti. Með tilliti til þessa þá var lögð mikil áhersla á það í skipulagsvinnunni að höllin verði afurð byggingarlistar af hæstu gæðum.
Jafnframt felur skipulagið í sér skilmála um hönnun byggingarinnar og skal hún innifela viðurkennt umhverfisvottunarferli. Þetta verður stórhýsi þar sem fyrir eru önnur stór mannvirki og því mikilvægt að vandað verði til verka á öllum stigum.“
Skipulagsvinnan heldur áfram
Eftir að ríkisstjórnin lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2024 til 2028 hefur verið rætt um að framkvæmdum við þjóðarhöll verði frestað eða jafnvel alveg ýtt út af borðinu. Þórður Már segist ekkert hafa heyrt að hætt verði við bygginguna. Skipulagsvinnu, sem að honum snýr, verður haldið áfram ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Landslag. Ekki sé þó hægt að útiloka að framkvæmdir dreifist á fleiri ár og höllin verði ekki tilbúin fyrr en 2027 í stað 2025.
„Ég get ekki tjáð mig um fréttir þess efnis að búið sé að fresta byggingu nýrrar þjóðarhallar en skipulagsferlið heldur ótrautt áfram. Stór áfangi átti sér stað í gær þegar borgarráð samþykkti að tillaga að breytingu á deiliskipulagi Laugardals yrði auglýst og gerum við okkur vonir um að breytt deiliskipulag öðlist gildi í sumar.
Viðbúið að tafir verði
Í farvatninu eru síðan verkefni í tengslum við sjálfa framkvæmdina, þ.e. forval um hönnuði, samkeppni um sjálfa höllina og að lokum upphaf framkvæmda. Vissulega er viðbúið að þessi verkefni tefjist eitthvað vegna stöðu mála í hagkerfinu en það er mín von að ný höll verði risin í síðasta lagi árið 2027,” segir Þórður Már Sigfússon skipulagsfræðingur og verkefnastjóri deiliskipulags nýrrar þjóðarhallar hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.