Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna vann stórsigur á afar slöku liði Lúxemborgar, 32:14, í fyrsta leiknum í 7. riðli undankeppni EM kvenna í handknattleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Munurinn á liðunum var 12 mörk eftir fyrri hálfleik, 19:7.
Gleðilegt var að sjá hversu góð mæting var á meðal áhorfenda á leikinn í kvöld en ekki færri en 1.400 voru á Ásvöllum til að styðja stelpurnar og nýta sér ókeypis aðgang. Meðal áhorfenda var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.
Vitað var að lið Lúxemborgar væri slakt en sennilega var það slakara en margrir reiknuðu með. Víst er að lið úr Grill 66-deildinni eru stekari en landslið Luxemborgar sem tekur nú í fyrsta sinn þátt í undankeppni EM á þessu stigi. Til þessa hefur liðið aðeins verið með í forkeppninni eða í þróunarkeppni á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins.
Íslenska liðið tók leikinn föstum tökum strax í upphafi og var komið með 10 marka forskot nokkru áður en leiktíminn var hálfnaður. Mjög reyndi á þolrifin að standa í vörn gegn löngum og ógnlitlum sóknum Lúxemborgara.
Í síðari hálfleik virtist sem loftið væri úr blöðrunni. Mjög dofnaði yfir leiknum sem einhvern veginn fjaraði út.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn Færeyingum í Þórshöfn á sunnudaginn. Þá verður annað upp á teningnum en á Ásvöllum í kvöld.
Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 7, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 1, Andrea Jacobsen 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 10, 58,8% – Hafdís Renötudóttir 5, 41,6%.
Handbolti.is fylgidst með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.