Ísland vann stórglæsilegan sigur á Svíþjóð, 35:27, í annarri umferð milliriðils 2 í Malmö Arena í Malmö í Svíþjóð í kvöld. Ísland fór með sigrinum upp í toppsæti riðilsins þar sem liðið er með fjögur stig eins og Svíþjóð og Slóvenía í sætunum fyrir neðan.
Þetta er svo sannarlega einn sætari og betri sigrum íslenska landsliðsins á síðari árum. Það er bókstaflega allt með Íslendingum í dag því einnig fannst loðna á stóru svæði í landhelginni! Það var því margt sem kætti 3.000 Íslendinga í Malmö Arena. Stemningin var eins og leikið væri á heimavelli ef undan er skilin kafli í síðari hálfleik þegar Svíum tókst að minnka muninn í eitt mark, 21:20 og 23:22.
Í innbyrðis stöðu Íslands, Svíþjóðar og Króatíu stendur íslenska liðið best að vígi með sjö mörk í plús, Svíar standa á núlli og Króatar eru með sjö mörk í mínum. Hinsvegar er framhaldið alfarið í höndum íslenska landsliðsins sem á tvo leiki leiki, gegn Sviss á þriðjudaginn klukkan 14.30 og réttum sólarhring síðar á móti Slóvenum.
Ísland vann þar með aðeins sinn annan sigur gegn Svíþjóð á Evrópumóti í sjöttu tilraun. Síðast hafði liðið unnið Svíþjóð í upphafsleik EM 2018. Þetta var hinsvegar fyrsti sigur íslensks landsliðs á Svíum á Evrópumóti í handknattleik í kappleik á sænskri grundu.
Ísland lék á als oddi í fyrri hálfleik og var með sex marka forystu, 18:12, að honum loknum.
Svíar hófu síðari hálfleik með miklu áhlaupi og minnkuðu muninn fljótlega í aðeins eitt mark, 21:20. Eftir að Svíþjóð minnkaði muninn í 23:22 skoraði Ísland þrjú mörk í röð, leit aldrei um öxl og komst mest átta mörkum yfir undir lokin.
Varnarleikurinn var frábær, mjög ákveðinn og sló Svía algjörlega út af laginu.
Í síðari hálfleik þegar Svíum tókst að minna muninn í eitt mark þá hélt íslenska liðið áfram frábærlega stutt af 3.000 Íslendingum sem átti keppnishöllina með húð og hári. Viktor Gísli varði allt hvað af tók og vörninn barðist af krafti áfram þar sem einna fremstur fór Haukur Þrastarson, ásamt Elliða, Arnari Freyr og Ými Erni.
Sóknarleikurinn var frábær frá upphafi til enda. Viggó tók af skarið eftir að hann kom inn í síðari og fór hreinlega hamförum á kafla. Hann skoraði alls ellefu mörk og var öryggið uppmálað í vörninni.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 11/6, Bjarki Már Elísson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Ómar Ingi Magnússon 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Elliði Snær Viðarsson 2, Janus Daði Smárason 2, Haukur Þrastarson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 12/2, Björgvin Páll Gústavsson 0.
Handbolti.is er í Malmö Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.









